Raddir úr Rangárþingi boða til rokkveislu

Yfir tuttugu söngvarar koma fram á tónleikunum. Ljósmynd/Aðsend

Fimmtudaginn 15. ágúst verður sannkölluð rokkveisla í íþróttahúsinu á Hellu. Að tónleikunum stendur hópur sem kallar sig Raddir úr Rangárþingi.

„Það er komið ár frá síðustu tónleikum og við bara fundum kallið. Það eru þarna nokkur lög sem hefur staðið til að flytja í langan tíma og hugmyndin
að rokktónleikum er búin að vera lengi að kalla á okkur,“ segir Glódís Margrét Guðmundsdóttir, ein af Röddum úr Rangárþingi, í samtali við sunnlenska.is.

„Þetta verkefni er eitt það allra skemmtilegasta sem við í hljómsveitinni höfum tekið þátt í og við erum orðin þyrst í næstu Raddatónleika, það er alltof langt á milli í þetta skiptið.“

Hver neglan á eftir annarri
Glódís segir að allir flytjendur séu að fara að toppa sig á þessum tónleikum. „Það er einhvern vegin mögnuð stemning að myndast í kringum lagavalið, hver neglan á eftir annarri. Það mætti nánast segja að lagavalið væri í svona dómsdagsstíl – lagið sem þú myndir flytja ef þetta væri þinn síðasti performance.“

Sem fyrr segir er þemað á tónleikunum rokk og segir Glódís að það verði flestar ef ekki allar tegundir af rokki á tónleikunum. „Við verðum með allt frá Bob Dylan yfir í dauða metalrokk. Flest lögin eru coverlög, lög eftir til dæmis Meatloaf, KISS, Kansas, Led Zeppelin, Utangarðsmenn, Rage Against the Machine og Muse.“

Yfir tuttugu söngvarar koma fram
Það vantar ekki hæfileikana í Rangárþingi en hljómsveitin sem leikur undir á tónleikunum er einnig öll skipuð fólki úr sýslunni.

„Húsbandið okkar er svipað og áður en við fáum til liðs við okkur bakraddir í þetta skiptið, þær Árný Gestsdóttur og Bergrúnu Önnu Birkisdóttur. Hljómsveitina skipa Glódís Margrét Guðmundsdóttir á hljómborð, Steinn Daði Gíslason á trommur, Gústav Ásbjörnsson á gítar, Gunnar Bjarki Guðnason á bassa, Kristinn Ingi Austmar á gítar og bakraddir, Dana Ýr Antonsdóttir á gítar og bakraddir. Svo höldum við í hefðina með leynigest eins og á fyrri tónleikum en þeir hafa aldrei verið fleiri en nú, á allskonar hljóðfæri og í alls konar hlutverkum.“

„Við erum með í kringum tuttugu söngvara sem allir taka eitt lag og endum svo tónleikana á því að allir komi saman í nokkur lög. Það eru þessi lokalög sem margir eru spenntastir fyrir, það er ótrúlega magnað að fá að taka þátt í þeim flutningi,“ segir Glódís að lokum.

Hægt er að nálgast miða inn á Tix.is.

Fyrri greinLyngheiði skemmtilegasta gatan
Næsta greinElín Birna verðlaunuð fyrir framlag til umhverfismála