Raddir úr Rangárþingi var eitt þeirra verkefna sem hlaut Hvatningarverðlaun Eyrarrósarinnar 2023 en tilkynnt var um verðlaunahafana í dag.
Eyrarrósin, viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni utan höfuðborgarsvæðisins, var afhent í átjánda sinn í dag og kom í hlut
Menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.
Þrjú verkefni hlutu Hvatningarverðlaunin en auk Radda úr Rangárþingi voru það Alþjóðleg píanóhátíð á Vestfjörðum og Hnoðri úr norðri á Akureri. Hljóta þau hvert um sig verðlaunafé að upphæð 750 þúsund krónur auk gjafakorts frá Icelandair að upphæð 100 þúsund krónur.
Raddir heimafólks virkjaðar
Það er ekki ofsögum sagt að raddir heimafólks séu virkjaðar til góðs í tónleikaröðinni Raddir úr Rangárþingi. Haldnir hafa verið þrennir tónleikar á Hellu undir þessari yfirskrift að undanförnu við miklar vinsældir. Alls hafa 25 söngvarar úr Rangárþingi komið fram á tónleikunum hingað til og þeim fjölgar enn, því hópur nýrra söngvara bætist við á næstu tónleikum í röðinni sem munu fara fram í ágúst næstkomandi. Söngvararnir sem koma fram syngja allt frá klassík til popptónlistar. Öll fá stuðning frá fagmanneskju við undirbúning tónleikanna og öll fá þau greitt fyrir framlag sitt.
Guðmóðir verkefnisins, Glódís Margrét Guðmundsdóttir, hefur metnað til þess að breikka hóp söngvaranna enn frekar og þá ekki síst með það í huga að hópurinn endurspegli það fjölmenningarlega samfélag sem við búum í. Valnefnd Eyrarrósarinnar fagnar þessu sérstaklega og hvetur Glódísi og samstarfsfólk hennar áfram á þessari braut.