Ragnar í Smára 120 ára

Ragnar í Smára fæddist í Mundakoti á Eyrarbakka þann 7. febrúar árið 1904. Hann var sonur Jóns Einarssonar hreppstjóra þar og Guðrúnar Jóhannsdóttur.

Jón var sonur Einars Bjarnasonar, bónda á Heiði á Síðu, og Ragnhildar Jónsdóttur, systur Jóns, langafa Jóns Helgasonar, fyrrv. ráðherra. Systir Ragnhildar var Guðlaug, amma Ástu, ömmu Davíðs Oddssonar, ritstjóra Morgunblaðsins. Guðrún var dóttir Jóhanns Þorkelssonar, verslunarmanns í Mundakoti, bróður Guðmundar, afa Guðna Jónssonar prófessors. Móðir Guðrúnar var Elín Símonardóttir.

Ragnar flutti sextán ára til Reykjavíkur, lauk verslunarprófi 1922, stundaði afurðasölu fyrir bændur um skeið, varð forstjóri og, ásamt Þorvaldi Thoroddsen, annar aðaleigenda smjörlíkisgerðarinnar Smára, Austurbæjarbíós og sápugerðarinnar Mána (síðar Frigg). Hann var stór eignaraðili í smjörlíkisgerðinni Sól og starfrækti Víkingsprent og Helgafell, sem varð eitt stærsta bókaforlag landsins.

Ævistarf Ragnars fólst í því að styrkja og hvetja unga rithöfunda og listamenn. Hann kynntist Þórbergi Þórðarsyni og Halldóri Laxness hjá Erlendi í Unuhúsi og gaf út verk þeirra, auk verka Gunnars Gunnarssonar, Tómasar Guðmundssonar, Steins Steinarr og Davíðs Stefánssonar. Þá var hann fyrsti útgefandi flestra þekktustu skálda af næstu kynslóð, styrkti fjölda íslenskra myndlistarmanna, var hvatamaður að stofnun Tónlistarskólans og stofnaði, ásamt Þorvaldi Thoroddsen, Ólafi Þorgrímssyni og fleirum, Tónlistarfélagið, sem fékk fjölda heimsþekktra tónlistarmanna til að halda tónleika hér á landi.

Ragnar var upphaflega vinstrisinnaður en umpólaðist og var sjálfstæðismaður upp frá því. Hann beitti sér gegn bandaríska herstöðvarsjónvarpinu og fyrir forsetakjöri Kristjáns Eldjárns 1968.

Bókin Mynd af Ragnari í Smára, eftir Jón Karl Helgason, kom út 2009.

Ragnar Jónsson í Smára lést þann 11. júlí 1984.

Björn Ingi Bjarnason á Eyrarbakka, forseti Hrútavinafélagsins Örvars, tók pistilinn saman.

Fyrri greinUnnur ráðin byggðaþróunarfulltrúi
Næsta greinTilfinningaþrungin ferð í gegnum lífið