Tónlistarhátíðin Ranarokk 2010 verður haldin í Ráðhúskaffi í Þorlákshöfn í dag. Hátíðin var síðast haldin fyrir rúmum 15 árum.
Á Ranarokki komu saman bílskúrsbönd af Suðurlandi og spiluðu eins og enginn væri morgundagurinn. Að undirlagi Hjartar Freys Jóhannssonar eða Dötta, hefur verið ákveðið að endurvekja þessa hátíð og ef vel tekst til, verður hún síðan haldin árlega.
Fyrri hluti dagskrár verður frá 17:00 til 19:30, þar sem opið verður fyrir alla aldurshópa. Meðal þeirra sem fram koma eru Stg. Millets Misbehavious Daughter, The Assasin of a Beautiful Brunette, Dötti, Nögl og Júlí Heiðar. Aðgangseyrir er 600 krónur.
Frá 19:30 til 21:00 verður hlé á tónlistardagskrá á meðan Ráðhúskaffivertinn framreiðir hlaðborð með rokkuðum kræsingum. Hlaðborðið kostar 2.500 kr. á mann, 3.500 ef keyptur er miði á tónleikaveisluna framundan í leiðinni.
Klukkan 21:00 hefjast tónleikar að nýju en fyrir seinni hlutann er 18 ára aldurstakmark og aðgangseyrir 1.500 kr. Meðal þeirra sem koma fram um kvöldið eru Stg. Millets Misbehavious Daughter, Ashton Cut, KAbear, The Assasin of a Beautiful Brunette, Dötti og Nögl.