Kjötsúpuhátíðin í Rangárþingi eystra hefst í kvöld með hinu árlega súpurölti og harmonikkuballi í Hvolnum.
Eftir hádegi á morgun verður síðan fjölbreytt dagskrá fyrir alla fjölskylduna, þar sem meðal annars verður keppt í hrepparíg. Þá verða umhverfisverðlaun sveitarfélagsins veitt og bestu skreytingar helgarinnar verðlaunaðar.
Kl. 15 á morgun verður framreidd kjötsúpa frá SS og skömmu síðar hefst tónlistardagskrá, meðal annars með söngkeppni barnanna.
Á laugardagskvöldið verður ball með Ingó og Veðurguðunum í Hvolnum.
Helginni lýkur síðan með afmælishátíð á sunnudaginn en þá verður haldið upp á 80 ára afmæli Hvolsvallar.