Íslandsbanki færði Listasafni Árnesinga í morgun veglega gjöf úr listaverkasafni bankans. Um er að ræða sjö verk eftir nokkra af þekktustu listamönnum þjóðarinnar.
„Við erum því stolt að geta afhent Listasafni Árnesinga þessa veglegu gjöf. Þetta eru þjóðargersemar sem við erum að fá til okkar hingað á Suðurland og ég hvet alla Sunnlendinga til að gera sér ferð í Hveragerði, koma við á safninu og njóta listaverkanna þegar að því kemur að þau verða sýnd. Listasafn Árnesinga er falinn demantur með fjölbreyttar og metnaðarfullar sýningar sem veita gott aðgengi að myndlistararfi þjóðarinnar,“ sagði Adólf Ingvi Bragason, útibústjóri Íslandsbanka á Selfossi, þegar gjöfin var afhent við hátíðlega athöfn í Hveragerði.
Meðal verka sem safnið fær að gjöf er stór Kjarvalsmynd frá Þingvöllum og tvö verk eftir Ásgrím Jónsson, glæsileg Þingvallamynd og lítil málverk úr Fljótshlíðinni, mikill dýrgripur. Að auki inniheldur gjöfin myndir eftir Gunnlaug Scheving, Þorbjörgu Höskuldsdóttur, Jón Þorleifsson og Jón Engilberts.
Hápunktur afmælissýningar
Zsóku Leposa, verkefnastjóri safneignar hjá Listasafni Árnesinga, var himinlifandi þegar hún tók við gjöfinni í morgun.
„Þetta er mjög rausnarleg gjöf frá Íslandsbanka því þarna eru verk eftir marga af þekktustu listamönnum Íslandssögunnar. Þessi gjöf smellpassar inn í safnið okkar því viðfangsefni verkanna er landslag á Suðurlandi og sérstaklega úr Árnessýslu. Myndirnar verða fljótlega til sýnis. Á næsta ári verður Listasafn Árnesinga 60 ára og við erum að undirbúa stóra sýningu af því tilefni með safnkostinum okkar. Þessi verk verða hápunktur þeirrar sýningar,“ sagði Zsóku í samtali við sunnlenska.is.
Á hluthafafundi Íslandsbanka á síðasta ári var samþykkt að bankinn gefi listaverkasafn sitt, samtals 203 verk, til Listasafns Íslands og annarra viðurkenndra safna. Flest verkanna sem um ræðir hafa verið í geymslu um nokkurt skeið og munu þau nú njóta sín eins og best verður á kosið hjá listasöfnunum.