Reiter og Emil Þór í Hellisheiðarvirkjun

Í sýningarrými Hellisheiðarvirkjunar hefur skapast sú skemmtilega hefð að setja upp listsýningar þar sem íslensk náttúra er helsta viðfangsefnið listsköpunarinnar.

Í kvöld verður formlega opnuð sýning á málverkum Rudolfs L. Reiter og ljósmyndum Emils Þórs Sigurðssonar.

Reiter er einn kunnasti listamaður samtímans í Þýskalandi og á sýningunni má sjá fáein nýrómantísk verk en þó fleiri sem kennd eru við „óformleg málverk” eða „Informelle Malerei” eins og það kallast á þýskri tungu.

Emil Þór hefur starfað sem ljósmyndari síðan á áttunda áratugnum, hann hefur haldið fjölda ljósmyndasýninga hérlendis og erlendis og einnig hafa verið gefnar út bækur með ljósmyndum hans.

Sýningin verður opnuð klukkan 18:00 og eru allir velkomnir. Lúðrasveit Þorlákshafnar leikur ljúfa tóna og léttar veitingar verða í boði Erdinger.

Fyrri greinSr. Kristinn fluttur til Danmerkur
Næsta greinBreyttur tími í Reyðarvatnsréttum