Hekla blúsfélag blæs nú í annað sinn til blúshátíðar í Rangárþingi. Herlegheitin hefjast á föstudagskvöld og standa fram á aðfaranótt mánudags.
Hátíðin ber nafnið Norden Blues Festival 2010 og þar koma fjölmargar hljómsveitir fram í samkomuhúsum og á veitingastöðum um alla sýsluna. Allt að 100 tónlistarmenn koma fram á hátíðinni með u.þ.b. 25 hljómsveitum eða tónlistarhópum.
Meðal þeirra sem koma fram á hátíðinni má fyrst nefna norska blúsbandið Vetrhus Bluesband, sem er talið vera eitt besta live blúsband í Skandinavíu. Meðal íslenskra hljómsveita eru RB blúsband, Síðasti Sjens, DBS, Blúsmenn Andreu, The Dirty Deal og Kristján Kristjánsson, KK. KK kemur fram einn og sér en einnig á kirkjutónleikum með Ellen, systur sinni, og með KK band.