Bókasafnið í Hveragerði efnir til ritsmiðju fyrir ungt fólk, með styrk frá Menningarráði Suðurlands. Leiðbeinandi í ritsmiðjunni verður Guðrún Eva Mínervudóttir.
Ritsmiðjan er hugsuð sem hvatning fyrir ungt fólk til að tjá sig á rituðu máli. Þátttakendum verður leiðbeint við að móta eigin hugmyndir og koma þeim frá sér, skrifa góðan og áhugaverðan texta á íslensku hvort sem er í formi smásögu, örsögu eða ljóðs.
Miðað er við að ungt fólk (15-25 ára) gangi fyrir, en öllum áhugasömum er bent á að sækja um og fer þá eftir aðsókn hvort þeir komast að. Gert er ráð fyrir að lágmarki 5 og hámarki 15 þátttakendum.
Ritsmiðjan verður þrjá laugardaga í febrúar, 2 klst. (3 kennslustundir) í senn, fyrst laugardaginn 14. feb. kl. 14. Námskeiðsgjald er 5000 krónur. Afrakstur ritsmiðjunnar verður annars vegar kynntur með birtingu á vef og hins vegar með viðburði í mars þar sem skrifin verða flutt á einn eða annan hátt.
Nánari upplýsingar fást á Bókasafninu í Hveragerði þar sem skráning fer fram til 10. febrúar.