„Rólegur og afslappaður jólaandi“

Friða og Stebbi eru dugleg að skapa töfra saman. Nú fyrir jólin sendu þau frá sér jólaplötuna Jól. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Söngkonan Fríða Hansen frá Leirubakka í Landsveit og tónlistarmaðurinn Stefán Þorleifsson, oftast kenndur við Tónsmiðjuna, sendu nýverið frá sér sína fyrstu jólaplötu sem nefnist einfaldlega Jól.

Platan inniheldur átta notalegar ábreiður og er hægt er að finna hana á öllum streymisveitum á íslensku undir nafninu Jól og á ensku undir nafninu Yule.

„Við Stebbi höfum unnið saman um það bil tólf ár – ef mér telst rétt til. Við eigum það til að skora á hvort annað og eru áskoranirnar misgáfulegar. Við ákváðum til dæmis halda tónleika í Landmannalaugum með tveggja daga fyrirvara og fleira því um líkt. Þessari jólaplötuáskorun tók Stebbi eftir smá umhugsun og við erum mjög ánægð með útkomuna,“ segir Fríða í samtali við sunnlenska.is.

Tekin upp á tveimur dögum
Fríða segir að þau hafi lagt upp með að gera plötuna á eins einfaldan hátt og hægt væri. „Við enduðum þó með að setja 25-30 vinnustundir í hana,“ segir Fríða og hlær.

„Á plötunni má heyra lítið unninn söng og píanóleik. Þetta var allt saman tekið upp á tveimur dögum í stúdíóinu Garðshorni – með hænur og hunda í næsta nágrenni.“

„Yfir plötunni svífur rólegur og afslappaður jólaandi. Hún kjörin til að njóta í jólabakstrinum eða gjafainnpökkuninni. Virkar líka ágætlega til að svæfa börn – að minnsta kosti barnið mitt,“ segir Fríða og hlær.

Hægt er að finna plötuna á öllum streymisveitum á íslensku undir nafninu Jól og á ensku undir nafninu Yule. Ljósmynd/aðsend

Afkastamikil söngkona
Fríða er enginn nýgræðingur þegar kemur að því að gefa út tónlist. Fyrr á þessu árið gaf hún út stuttskífuna Vaxtaverkir en hún hefur reglulega sent frá sér lög, bæði frumsamin og ábreiður, frá árinu 2020. Árið 2020 gáfu Fríða og Stefán út jólalagið Undir stjörnugliti en lögin á plötunni Jól eru þó eins og fyrr segir öll ábreiður.

„Við lögðum okkur fram um að breyta útsetningunum og gera þau meira að okkar. Á plötunni eru átta lög, við leikum okkur að fimm lögum saman – þar er píanó og söngur, og í síðustu þremur heyrist aðeins í píanóinu, enda er Stefán framúrskarandi píanóleikari og það á að heyrast meira í honum. Hann hefur gefið út nokkur píanólög á streymisveitunum sem ég mæli með að kíkja á.“

Aðspurð hvort það standi ekki til að halda jólatónleika í tilefni af útgáfu plötunnar segir Fríða að þau séu að skoða það. „Við erum að íhuga að reyna að troða inn stuttum jólatónleikum – en það eru tónleikar úti um allt. Við útilokum ekkert en biðjum fólk endilega að fylgjast með á Instagram og Facebook en þar munu þeir verða auglýstir ef þeir verða haldnir.“

Fríða og Stebbi eru komin í mikið jólaskap. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Fólk er hugulsamara í desember
Fríða kveðst sjálf vera mikið jólabarn. „Mér finnst jólin alveg yndislegur tími. Þá er engin ein ástæða frekar en önnur en mér finnst fátt fallegra en að sjá upplýstar götur og seríur í gluggum, grænir og allra lita aðventukransar í búðum og bæjum, kertaljós um öll hús og mandarínu- og piparkökuilmur í hverju horni. Mér finnst fólk vera hugulsamara í desember og gefa sér meiri tíma í spjall um daginn og veginn.“

„Ég reyni að baka sörur og lakkrístoppa – og þá er jólaskapið yfirleitt dottið inn. Á jólunum reynum við fjölskyldan öll að koma saman ef veður og vindar leyfa og höfum við verið heppin að fá Önnu systur heim frá Danmörku, næstum öll jól síðan hún flutti út,“ segir Fríða en Anna systir hennar ætti að vera lesendum sunnlenska.is að góðu kunn en hún er bakraddasöngkona hjá dönsku popphljómsveitinni Aqua.

„Ef það er eitthvað sem ég sakna, þá er það jólakortahefðin, sem nú er að deyja út! Kannski byrja ég að skrifa jólakort fyrir næstu jól – en fyrir þessi jólin sendum við Stefán sameiginlegt átta laga jólakort á alla sem vilja,“ segir Fríða að lokum.

Instagram-síða Fríðu Hansen

 

Fyrri greinSíðasta upplestrarkvöldið fyrir jól
Næsta greinTillögurnar stuðli að sátt um uppbyggingu vindorkunýtingar