Selfyssingurinn Ronja Lena Hafsteinsdóttir sigraði í Söngkeppni Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands sem fram fór í íþróttahúsinu Iðu á Selfossi í kvöld.
Ronja Lena geislaði á sviðinu þegar hún flutti Janis Joplin-lagið Me and Bobby McGee og heillaði kraftmikill söngur hennar og frábær sviðsframkoma bæði dómnefndina og gesti í salnum.
Þetta var líka stórt kvöld fyrir Landeyinga því að í 2. sæti varð Rangæingurinn Heimir Árni Erlendsson frá Skíðbakka í Austur-Landeyjum og í 3. sæti Björk Friðriksdóttir frá Eystra-Fíflholti í Vestur-Landeyjum varð í 3. sæti. Heimir Árni flutti Johnny Cash lagið Folsom Prison Blues og Björk Írafárslagið Ég sjálf. Selfyssingurinn Sigurður Ernir Eiðsson fékk svo verðlaun fyrir skemmtilegasta atriðið en hann tók Europe-lagið Final Countdown af mikilli snilld.
Átta keppendur tóku þátt í keppninni sem er einn af hápunktum félagslífsins í Fjölbrautaskóla Suðurlands ár hver. Engan bilbug var að finna á nemendum þrátt fyrir að skólahald liggi niðri vegna verkfalls kennara. Kvöldið var glæsilegt en þema kvöldsins var James Bond.
Í dómarahléinu var boðið upp á frábær skemmtiatriði, hljómsveitin Koppafeiti spilaði en hún spilaði einnig lystilega undir hjá keppendum, Gísli Freyr Sigurðsson, sigurvegari síðasta árs flutti tvö lög með hljómsveit sinni Slysh og Flóni steig á stokk og flutti nokkur lög af nýju plötunni sinni.