Rótgróin hátíð á Bakkanum

Enn á ný kalla Eyrbekkingar sjálfa sig, nágranna og aðra gestkomandi til Jónsmessuhátíðar á Eyrarbakka. Hátíðin er haldin í fjórtanda sinn á laugardag og enn og aftur er boðið upp á fjölbreytta dagskrá fyrir unga sem aldna.

Að morgni verður boðið upp á dagskrá fyrir unga fólkið þar sem Brúðubíllinn kemur í heimsókn og farið verður í leiki. Söfnin á Eyrarbakka sjá um ratleik og boðið verður upp á hressingu.

Eftir hádegi verður heimboð hjá Sæunni og Hafþóri í Götuhúsum þar sem Hafþór býður fólki að skoða fuglana sem hann gerir svo listilega. Þá bjóða þau Arnrún og Guðmundur á Háeyrarvöllum 8 heim til sín og þar má búast við fjörugum umræðum um fótbolta og annað sem efst er á baugi.

Í tilefni af sýningu Byggðasafns Árnesinga um sunnlenska Ólympíufara mun Jón Arnar Magnússon íþróttakappi, ásamt öðru frjálsíþróttafólki, koma í heimsókn og gestir geta reynt sig í kúluvarpi.

Síðdegis verður farið í kýló á Garðstúninu og haldnir verða úgáfutónleikar í Merkigili hjá Ómari Diðriks og Sveitasonum.

Eitthvert vinsælasta atriði Jónsmessuhátíðarinnar undanfarin ár, söngstund í stásstofu Hússins, verður á sínum stað í byrjun kvölds. Heimir Guðmundsson leikur á elsta píanó á Suðurlandi undir almennan söng þar sem hver syngur með sínu nefi.

Brennan í fjörunni vestan við Eyrarbakka hefur ætíð dregið til sín margmenni og ekki er von á neinu öðru að þessu sinni. Þar mun Bakkamaðurinn Árni Valdimarsson flytja stutt ávarp og síðan sér Bakkabandið um fjörið meðan menn endast.

Opið verður í Vestubúð, Laugabúð og í Gallerí Regínu. Í Gónhól verður bröns í morgunsárið og sumarblómamarkaður og sölubásar síðdegis.

Í Gónhól verða tónleikarnir Á Eyrunum að kvöldi dags og hlöðuball eftir miðnætti.

Rauða húsið býður upp á Jónsmessumatseðil allan daginn og um kvöldið verður trúbador í kjallaranum.

Nákvæma dagskrá má finna á www.eyrarbakki.is og www.arborg.is.

Fyrri greinEinar valinn í U20 liðið
Næsta greinTil hagsbóta og öryggis fyrir atvinnulíf og íbúa