Í dag verður efnt til rútuferðar um Þingvallavatn og Flóann í tengslum við sýninguna „Tíminn í landslaginu – Ásgrímur Jónsson og Arngunnur Ýr“ í Listasafni Árnesinga.
Markmiðið með ferðinni er að skoða landslagið sem uppsprettu hugmynda og hvernig það nýtist bæði myndlist og bókmenntum. Þessi rútuferð er fyrsti hlutinn af þremur í samstarfsverkefni sem Listasafn Árnesinga og Bókasafnið í Hveragerði skipuleggja þar sem útgangspunkturinn er uppspretta hugmynda og fanga leitað í nærsamfélaginu. Listasafn Árnesinga er í eigu allra sveitarfélaganna átta í Árnessýslu og í þessari ferð er farið um sex þeirra.
Fararstjórar verða safnstjórarnir Inga Jónsdóttir og Hlíf Arndal en einnig verða með í för Jón Proppé heimspekingur og sýningarstjóri og myndlistarmaðurinn Arngunnur Ýr.
Í sameiningu munu þau beina sjón og heyrn að Ásgrími Jónssyni (1876 – 1958) sem fæddist og ólst upp í Rútsstaðahverfi í Flóa, vann á unglingsárunum um þriggja ára skeið í Húsinu á Eyrarbakka og í verkum hans má sjá mörg kennileiti sem bent verður á í ferðinni. Arngunnur, sem starfandi myndlistarmaður, mun segja frá hvernig náttúran verður að landslagi í verkum sínum og hvernig hún m.a. setur kennileiti tveggja landa í eitt og sama verkið. Þó verk þessara tveggja listamanna verði í forgrunni þá verður einnig litið til annarra listamanna og úrvinnslu þeirra og eins vitnað í bókmenntir þar sem umhverfið er dregið fram. Síðast en ekki síst er vonast til þess að þátttakendur eigi sinn þátt í því að fjörugar umræður skapist.
Lagt verður að stað frá Listasafni Árnesinga í Hveragerði kl. 11. Ekið verður upp Grafninginn og umhverfis Þingvallavatn réttsælis. Fyrsta stopp verður við útsýnispall Hengilssvæðisins og síðan stansað við Hakið þar sem einnig er gengið að útsýnispalli. Þaðan geta þeir sem þess óska gengið niður Almannagjá og niður á Vellina þar sem hægt verður að ná rútunni aftur en rútan mun aka að þjónustumiðstöðinni þar sem áð verður. Stutt stopp verður gert við útsýni að Arnarfelli og síðan ekið í gegn um Selfoss að minnisvarða um Ásgrím í Flóanum. Síðan verður ekið meðfram sjónum að Húsinu á Eyrarbakka og ferðin endar síðan í Listasafni Árnesinga þar sem hægt verður að skoða sýninguna Tíminn í landslaginu. Áætlað er að það verði um kl. 16.
Ferðin og sýningin nýtur stuðnings Menningarráðs Suðurlands. Þátttökugjald er 4.000 krónur á mann og er fólk er hvatt til þess að taka með sér nesti. Skráning í síma 483 1727 eða listasafn@listasafnarnesinga.is