Í haust var rykið dustað af starfsemi Leikfélags Fjölbrautaskóla Suðurlands en það hefur ekki verið virkt um langt árabil. Skemmst er frá því að segja að uppskeran vetrarins er að komast á svið nú í apríl.
Það var ekkert verið að fara auðveldu leiðina heldur er um að ræða frumsamin gamansöngleik sem ber nafnið Á bak við tjöldin. Höfundar verksins eru fjórar stúlkur, sem eru allar nemendur í FSu, þær Hanna Tara Björnsdóttir, Helga Melsted, Sigríður Fjóla Þórarinsdóttir og Svala Nordahl, sem að jafnframt eru leikstjórar auk þess að leika allar í verkinu. Fjölmargir nemendur taka þátt í sýningunni á einn eða annan hátt: Leika, syngja, dansa, búningahönnun, ljós, sviðsmynd og margt fleira.
Verkið verður sett upp í leikhúsinu í Hveragerði, en Leikfélag Hveragerðis var svo hugulsamt að lána Leikfélagi FSu húsnæðið sitt. Frumsýningin verður föstudaginn 22. apríl og aðrar sýningar 23. og 24. apríl. Hægt er að nálgast allar upplýsingar á Instagrami Leikfélags FSu undir leikfelagfsu. Hægt er að panta miða með því að hringja í síma 897 8685 eða senda á Instagramið.
Aðstendendur sýningarinnar vonast eftir því að sjá sem flesta.