Söfnunarátak sem biskup Íslands, sr. Agnes Sigurðardóttir, ýtti úr vör fyrir hönd þjóðkirkjunnar nýlega til kaupa á línuhraðli fyrir Landspítalann verður í gangi í Selfosssöfnuði allan októbermánuð.
Sérstök kvöldmessa verður haldin sunnudagskvöldið 6. október kl. 20 þar sem hinn góðkunni Magnús Þór Sigmundsson leiðir tónlistina og prestarnir flytja talað mál. Þá mun Grímur Hergeirsson, sem reynslu hefur af þessu tæki í glímu sinni við krabbamein, flytja tölu.
Messur og tónleikar í október
Allar messur í Selfosskirkju í október verða sérstaklega tileinkaðar söfnuninni og verður sérstakur baukur hafður frammi fyrir frjáls framlög. Lokapunktur söfnunarátaksins verður svo árlegir hausttónleikar Kirkjukórsins fimmtudagskvöldið 31. október en allur aðgangseyrir á tónleikana rennur óskiptur til söfnunarinnar.
Sóknarnefnd Selfosskirkju, starfsfólk og prestar standa saman að skipulagningu söfnunarinnar í sókninni og verður sérstaklega leitað eftir stuðningi fyrirtækja á svæðinu ásamt því sem einstaklingar verða hvattir til að leggja sitt að mörkum.
Sóknarnefnd Selfosskirkju, starfsfólk og prestar hvetja alla íbúa á Selfossi og nágrenni að leggja þessu mikilvæga málefni lið.