Safnahelgin: Fjölbreytt dagskrá í Árborg

Nú um helgina fer Safnahelgin á Suðurlandi fram í þriðja sinn. Hátíðin hefur vaxið og dafnað með hverju árinu og alltaf bætast nýir viðburðir við.

Dagskráin í Árborg verður með fjölbreyttasta móti þetta árið. Bókasafn Árborgar á Selfossi, Stokkseyri og Eyrarbakka verða öll með skipulagða dagskrá. Á Selfossi verður í Listagjánni sýning á gömlum stríðsminjum í eigu Tryggva Blumenstein, safnara, frá hernámi Breta og veru þeirra á Íslandi í seinni heimstyrjöldinni. Einnig verða til sýnis munir frá Byggðasafni Árnesinga og verslunin Hosiló sýnir kjóla frá hernámstímabilinu.

Á Eyrarbakka verður sýning sem ber heitið “Fuglar í Flóanum”. Þar verða ljósmyndir, útskornir fuglar og bækur til sýnis. Á Stokkseyri verður síðan samsýning tveggja myndlistarmanna, þeirra Gunnars Guðsteins Gunnarssonar og Elvars Guðna. Þeir hafa báðir haft vinnuaðstöðu í Hólmaröst til margra ára en eru að sýna saman í fyrsta skipti núna.

Héraðsskjalasafn Árnesinga verður í samstarfi við Bókasafn Árborgar á Selfossi með leiðsögn um kirkjubækur og ættfræðirit. Gestir geta því komið og fengið aðstoð við að rekja sínar ættarsögur.

70 ár frá hernámi Breta á Íslandi
Á safnahelginni verður sérstök afmælisdagskrá á laugardeginum í tengslum við það að 70 ár eru frá hernámi Breta á Íslandi í seinni heimstyrjöldinni. Dagskráin hefst um morguninn með ferð um Kaldaðarnesið undir leiðsögn Þórs Vigfússonar og endar á “Ekki safninu” í flugskýli Einars Elíassonar á Selfossflugvelli. Skúli Sæland, Sævar Logi, Guðni Ágústsson og Ólafur Sigurðsson, fyrrv. fréttamaður verða með fyrirlestra í Tryggvaskála, nemendur frá Tónsmiðju Suðurlands spila og einstaklingar sem upplifðu stríðsárin segja reynslusögur. Erlingur Brynjólfsson fer síðan yfir sviðið í Litla leikhúsinu við Sigtún og áður óséðar hreyfimyndir frá Kvikmyndasafni Íslands verða sýndar þar ásamt leikþætti frá Leikfélagi Selfoss.

RIFF – Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Pakkhúsinu
Í ungmennahúsi Árborgar, Pakkhúsinu verða fjórar myndir frá Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík sýndar um Safnahelgina. Myndirnar heita All Boys, Addicted in Afghanistan, Symbol og Little Rock en sú síðastnefnda hlaut áhorfendaverðlaun RIFF þetta árið. Þetta er í annað sinn sem sýndar eru myndir frá RIFF í Pakkhúsinu um Safnahelgina en núna verða þær sýndar í Hofinu nýja lista- og menningarsalnum í kjallara Pakkhússins. Aðgangur er ókeypis á allar myndirnar en nánari upplýsingar um þær er hægt að finna á www.pakkhusid.is. Hátíðin er styrkt af Menningarráði Suðurlands.

Kveðskapur og rúgbrauðsgerð í Byggðasafni Árnesinga
Í Húsinu á Eyrarbakka verða kveðnar vísur af Kvæðamannfélaginu Árgala ásamt sýningu á ýmsum gripum sem tengjast rúgbrauði. Boðið verður upp á rúgbrauðssmökkun en sérstaklega verður fjallað um Hverarúgbrauðið. Einnig verður kynntur bæklingur um gömlu húsin á Eyrarbakka og farið í ratleik. Í Sjóminjasafninu mætir Sigurgeir Hilmar Friðþjófsson og segir sögur í rökkrinu og endurverkur liðna anda.

Bændamarkaður, handverk og kaffihús á Gónhól
Mikið fjör verður í kringum Gónhól á Eyrarbakka alla Safnahelgina. Auk bændamarkaðar og handverks mætir Þjóðlagasveitin Korka á föstudagskvöldinu og spilar þjóðlög frá hinum ýmsu löndum. Þjóðlegt hádegisverðarhlaðborð verður í boði á laugardeginum og eftir hádegi verða tónleikar með Gústa Hraundal. Ómar Diðriks kynnir síðan nýútkominn disk sinn, sögur af fólki á laugardagskvöldinu.

Ýmsir aðrir viðburðir verða í gangi í Árborg eins og uppskriftir í pottunum en gestir sundlauga Árborgar á Selfossi og Stokkseyri geta þá skoðaða gómsætar uppskriftir í heitu pottunum. Veiðisafnið á Stokkseyri verður opið á laugardeginum og Gallerý Regína hefur opið alla helgina sem og verður sett upp málverkasýning í Barnaskólanum á Eyrarbakka. Hægt verðu að kíkja á handverksmarkað í gömlu hreppskrifstofuna á Stokkseyri eða skella sér í söguferð um Eyrarbakka og Stokkseyri. Einnig munu flest veitingahús og bakarí í sveitarfélaginu verða með tilboð og fleira í gangi alla helgina en Matarklasi Suðurlands tekur þátt í Safnahelginni. Nánari dagskrá Safnahelgarinnar 5.- 7. nóvember verður hægt að nálgast á www.sunnanmenning.is og í fjölmiðlum. Sunnlendingar skemmtið ykkur vel á Safnahelginni 2010.

Bragi Bjarnason
íþrótta- og tómstundafulltrúi Árborgar

Fyrri greinFrostrósir bæta við miðnætur-tónleikum
Næsta greinRáðherra ennþá undir feldi