Í síðustu viku var var sögusýning um Tryggvaskála á Selfossi formlega opnuð í Skálanum. Undirbúningurinn hefur staðið í rúmt ár en Björn G. Björnsson, leikmyndahönnuður, var fenginn til að hanna sýninguna.
„Þó meginviðfangsefni Skálafélagsins hafi verið endurgerð Skálans þá var markmið einnig frá upphafi að gera grein fyrir sögu hans og þýðingu hans fyrir samfélagið á Selfossi, því segja má að saga Skálans og byggðarinnar hafi verið samofin alla tíð. Sýningin sem nú hefur verið opnuð er tilraun til að koma sögu Tryggvaskála á framfæri við yngri kynslóðirnar og vekja upp gamlar og góðar minningar hjá þeim eldri,“ segir Þorvarður Hjaltason, stjórnarmaður í Skálafélaginu.
Tryggvaskáli var byggður árið 1890 fyrir tilstilli Tryggva Gunnarssonar en húsið var fyrst notað fyrir brúarsmiði Ölfusárbrúar. Rúmum tíu árum síðar hófst svo veitingarekstur í húsinu og þar var einnig rekið gistiheimili.
COVID setti strik í undirbúninginn
Undirbúningur að sýningunni hófst í ársbyrjun 2020 og til stóð að opna sýninguna síðla vors en Covid og stöðvun starfseminnar í Skálanum kom í veg fyrir að það væri hægt, fyrr en nú. Í millitíðinni var tækifærið nýtt til að gera rækilegt átak í viðhaldi hússins.
Auk Björns G. unnu að sýningunni þau Þorsteinn Tryggvi Másson, Héraðsskjalasafni Suðurlands, Már Másson sagnfræðingur og kennari og Lýður Pálsson Byggðasafni Árnessýslu sem sáu um textann ásamt Birni, Hannes Stefánsson fyrrverandi kennari prófarkalas og Bryndís Brynjólfsdóttir og Þorvarður Hjaltason héldu utan um starfið. Uppbyggingarsjóður Suðurlands styrkti verkefnið um 400 þúsund krónur.
Merkilegur þáttur í sögu Selfoss
Gert er ráð fyrir að söguskiltin verði áfram á neðri hæð Skálans, Litla salnum, til frambúðar fyrir gesti og gangandi og vonast til að sem flestir geri sér ferð til að skoða sýninguna og fræðast um þennan merkilega þátt í sögu Selfoss. Sýningin verður opin almenningi frá og með 10. júní en þá hefst veitingarekstur á nýjan leik í húsinu og eru allir velkomnir að skoða sýningun hvort sem þeir þiggja veitingar eður ei.