Verk Rósu Gísladóttur myndlistarmanns hafa sterka tilvísun í klassíska hefð um leið og þau eru nútímaleg og vísa líka í hversdagsleikann.
Stórir skúlptúrar
Á sýningunni í Listasafni Árnesinga eru þau sett upp eins og tvær kyrralífsmyndir af ólíkri stærðargráðu. Þessa stóru skúlptúra vann Rósa fyrir sýningu á hinu virta safni, Mercati di Traiano, í rústum Keisaratorganna í Róm sumarið 2012. Fyrr á þessu ári sýndi sjónvarpið heimildarmynd um gerð verkanna og undirbúning sýningarinnar í Róm.
Ólafur Gíslason heimspekingur og fyrrum listgagnrýnandi mun ræða við Rósu og gesti safnsins í dag kl. 15 um þá minningu sem verkin geyma um horfin gildi og þær stóru spurningar sem Rósa hefur náð að vekja með verkum sínum um stöðu listarinnar, tækninnar og siðmenninguna í samfélaginu.
Listasafn Árnesinga tekur vel á móti gestum á öllum aldri og býður gesti velkomna til þessarar samræðu þar sem kærkomið tækifæri gefst til þess að ræða við listamanninn um gerð skúlptúranna og hugsunina þar á bakvið.
Safnið er opið fimmtudaga til sunnudaga kl. 12-18 og er aðgangur ókeypis.