Á morgun, laugardag, verða samstöðu og baráttutónleikar í Þorlákshöfn. Tilgangur tónleikanna er að vekja athygli á stöðu eldri borgara í Ölfusi.
Að tónleikunum standa Tónar og Trix en það er tónlistarhópur eldri borgara í Þorlákshöfn.
„Við viljum vekja athygli á þeirri stöðu sem eldri borgarar í Ölfusi búa við en ef þeir missa heilsu og þurfa á umönnun utan dagvinnutíma að halda, þá þurfa þeir að fara í önnur byggðarlög til þess að fá viðeigandi þjónustu,“ segir Ása Berglind Hjálmarsdóttir, stjórnandi tónlistarhópsins.
„Það er eins og gefur að skilja ekki viðunandi að neyðast til þess að flytja frá fjölskyldu, vinum og samfélaginu sem viðkomandi hefur verið partur af meirihluta ævi sinnar vegna þess að það getur ekki mætt þörfum þess. Þetta er mjög sorgleg staða og það tekur á að horfa upp á þá sem þurfa að fara gegn sínum vilja úr þorpinu og einnig aðstandendur þeirra sem hafa engin önnur ráð,“ segir Ása.
Ása segir að þau vilji leggja sitt af mörkum og það geri þau með því sem þau gera best, að syngja og spila tónlist. „Það er nú einu sinni þannig að tónlistin hefur ótrúlega mikinn sameiningarmátt,“ segir Ása. Hún segir að að þau hafi sent þingmönnum og bæjarstjórnarmönnum bréf þar sem þau hvetja þá til að koma og sýna þeim samstöðu í þessu máli. Einnig munu þau að þessu tilefni standa að því að Hollvinafélag eldri borgara í Ölfusi verði sett á laggirnar, en það félag mun halda áfram baráttunni fyrir því að íbúar Ölfus geti verið sem lengst í sinni heimabyggð.
Ása segir hafa þau fengið til liðs við sig mikið af hæfileikaríkum tónlistarmönnum. „Við erum svo heppin að hafa hljómsveit með okkur og hana skipa Jónas Sigurðsson á trommur, Árni Þór Guðjónsson á gítar, Róbert Dan Bergmundsson á bassa og Gestur Áskelsson á hljómborð. Þá munu einnig nemendur úr Tónlistarskóla Árnesinga koma fram, við fáum líka lánaða blásara úr Lúðrasveit Þorlákshafnar og síðast en ekki síst mun skólakór Grunnskólans í Þorlákshöfn syngja með okkur í einu lagi,“ segir Ása.
„Þema tónleikanna er ný íslensk popptónlist og munu lög eftir Ásgeir Trausta, Valdimar Guðmundsson, Jónas Sig, Of Monsters and Men og fleiri hljóma. Svo verða líka flutt tvö lög eftir meðlimi Tóna og Trix. Ég vil hvetja alla sem langar að hlusta á skemmtilega tónlist flutta af skemmtilegu fólki til þess að koma og um leið sýna þannig samstöðu um þetta mikilvæga málefni því það snertir okkur öll á einn eða annan hátt.“ segir Ása að lokum.
Sem fyrr segir verða tónleikarnir í Ráðhúsi Ölfuss á morgun, laugardaginn 25. maí og hefjast þeir kl. 17:00. Miðaverð er 2.000 kr. en frítt fyrir 14 ára og yngri.