Nýútkomin er bókin „Óbyrjur tímans“ eftir Guðbrand Gíslason. Þar segir frá frumbernsku höfundar en foreldrunum reynist það erfiður baggi að ala upp barn og hann fer á upptökuheimili til að byrja með.
Félagsþjónustan var á þessum tíma – um 1950 – kannske ekkert flóknari en það að taka upp tólið og hringja í Landssímann. Drengur er þá sendur svona eins og önnur vara með áætlunarbílnum til fósturs í sunnlenskri sveit. Væntanlegur fóstri sækir hann á áfangastað og það myndast strax sterk tengsl milli þeirra og þurfti aðeins rautt epli til. Svo varð einnig milli drengsins og fóstrunnar og annars heimilisfólks að þar hélst ævilöng tryggð þeirra á milli.
Eftir skólagöngu heldur hann svo á leið út í hinn viðsjárverða heim en þá var mun lengra á heimsendann en nú er. Að þessu heimsflakki loknu snýr hann aftur heim og fer að sinna hefðbundnari vinnu og borgaralegra líferni.
Bókin er afar vel skrifuð, málfar skáldlegt, stíllinn stundum knappur og lesa þarf sumt aftur. Þó að undirrituð ætli sér ekki þá dul að leysa upp hugsanir Guðbrandar og telja sig vita hvað hann er „að hugsa“ þá er bókin áhugaverð og því hér mælt með henni.
Við leit í Bókakaffinu á Selfossi að Óbyrjum tímans fannst hún ekki alveg strax en á bókarkápu er mynd af tárvotu auga. Kannske er það inntak bókarinnar?
Þórdís Kristjánsdóttir