Setur jólatréð upp um miðjan nóvember

Elín Birna Bjarnfinnsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Elín Birna Bjarnfinnsdóttir á Eyrarbakka svaraði nokkrum jólaspurningum fyrir sunnlenska.is.

Hvort ertu meiri skröggur eða jólaálfur? Ég er nú meiri jólaálfur, skreyti oftast mjög snemma og finnst gott að hafa jólaljósin svolítið lengur uppi líka. Jólatré er oftast komið upp um miðjan nóvember, stundum fyrr. Ég er svo heppin að fá að skreyta líka í vinnunni hjá mér á Stað og skreyti líka oft snemma þar.

Uppáhalds jólasveinn? Það er nú klárlega Hurðaskellir.

Elín Birna á jólunum.

Uppáhalds jólalag? Úff, ég á svo mörg uppáhalds jólalög en ef ég á að velja þá er uppáhalds íslenska jólalagið mitt Senn koma jólin með Siggu Beinteins og uppáhalds erlenda jólalagið er All I Want for Christmas is You með Mariah Carey.

Uppáhalds jólamynd? Það The Holiday. Ég get endalaust horft á þá mynd.

Uppáhalds jólaminning? Það er þegar ég var yngri og jólasveinarnir komu í heimsókn á aðfangadagsmorgun og með pakka. Það var svo gaman þó ég hafi nú stundum verið hrædd við þá.

Uppáhalds jólaskraut? Það er skaut sem ég fékk í vinagjöf fyrir nokkrum árum frá góðri vinkonu frá Þorlákshöfn – jólatré með stafnum mínum E til að hengja á jólatréð. Ég held mikið upp á þetta jólaskraut.

Uppáhalds jólaskrautið.

Minnistæðasta jólagjöfin? Það er það sem börnin mín bjuggu til í leikskólanum þegar þau voru þar. Þá voru málaðar bjöllur, krukkur, og fleira. Það er mín uppáhalds jólagjöf frá þeim.

Hvað finnst þér ómissandi að gera fyrir hver jól? Það er að fara í Jólaþorpið og Hellisgerði í Hafnarfirði. Það er svo fallega skreytt þar og gaman að koma þangað en ég fer nokkrum sinnum yfir jólahátíðina. Hvet þá sem ekki hafa farið þangað að kíkja.

Hvað er í jólamatinn? Það er alltaf hamborgarhryggur hjá okkur, kartöflur, sósa, rauðkál, grænar og gular baunir. Svo ís og ávextir í eftirrétt.

Elín Birna er mikið jólabarn.

Ef þú ættir eina jólaósk? Vona að allir geti haldið gleðileg jól og eigi mat og gjafir handa sínum. Að lokum vil ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla, gott og farsæls komandi ár.

Fyrri greinKýrnar handmjólkaðar við kertaljós í rafmagnsleysi á jólunum
Næsta greinGleðileg jól!