Sex grunnskólar taka þátt í Skjálftanum

Grunnskólinn í Hveragerði sigraði í Skjálftanum í fyrra. Ljósmynd/Sunna Ben

Skjálftinn, hæfileikakeppni ungmenna í grunnskólum á Suðurlandi 2024, verður haldinn laugardaginn 23. nóvember í íþróttahúsinu í Þorlákshöfn. Þetta er í fjórða sinn sem keppnin er haldin.

Framkvæmdastjóri Skjálftans í ár er Halldóra Rut Baldursdóttir, en stofnandi Skjálftans Ása Berglind Hjálmarsdóttir tók sér leyfi frá lokaundirbúningnum þetta árið þar sem hún er í framboði til Alþingis fyrir Samfylkinguna. Halldóra Rut hefur reyndar í nægu að snúast líka því hún er kosningastjóri Viðreisnar á Suðurlandi.

„Já, það er gaman að þessu, við blikkum hvora aðra í baráttunni þessa dagana. Við höfum auðvitað báðar brennandi áhuga á barnamenningu og höfum báðar unnið að því að efla ungt fólk á Suðurlandi síðustu 20 árin og munum halda því ótrauðar áfram,“ segir Halldóra Rut í samtali við sunnlenska.is.

„Ása Berglind kom verkefninu á fót og hefur það áfram síðustu árin í samstarfi við brjálæðislega hæfileikaríkt ungt fólk í 8. – 10. bekk grunnskólanna á Suðurlandi. Nú er svo komið að okkur Ásu Berglindi langar til að búa til stjórn fyrir Skjálftann, með ungu fólki á aldrinum 14-25 ára sem brennur fyrir menningu og listum og eflingu menningar ungs fólks á Suðurlandi,“ bætir Halldóra við en öll þau sem eru áhugasöm um það verkefni geta sent Halldóru póst á kromik@kromik.is.

Ljósmynd/Skjálftinn

Listasprengjur á sviðinu í Þorlákshöfn
Í ár taka sex skólar þátt í keppninni og má búast við leikhús-, tónlistar- og listasprengjum næstkomandi laugardag. Sem fyrr þá verður íþróttahúsinu í Þorlákshöfn breytt í glæsilegt menningarhús, þar sem atriðin munu njóta sín við fyrsta flokks aðstæður en Skjálftanum verður einnig sjónvarpað á UngRÚV.

Kynnar keppninnar eru systurnar og hæfileikabúntin Hildur og Regína Magnúsdætur frá Hveragerði og dómnefndina skipa Unnsteinn Manúel listamaður, Dagný Sif tónlistarkona og Sigyn Blöndal dagskrárgerðarkona og réttindaskólastjóri UNICEF.

Markmið Skjálftans er að efla sköpunargáfu, kenna ungmennum að hugsa út fyrir rammann, kenna verklag og þjálfa þau í markvissu, langvinnu hópastarfi. Skjálftinn er búinn til til þess að jafna tækifæri ungmenna til náms, óháð búsetu og gefa þeim kost á að kynnast ólíkum störfum innan sviðslista, þar á meðal þeim mikilvægu störfum sem eru unnin á bakvið tjöldin.

Hægt er að fylgjast með Skjálftanum á instagram og facebook, nánari upplýsingar er einnig að finna á skjalftinn.is

 

 

Fyrri grein„Glæsilegt mannvirki og mikilvæg samgöngubót“
Næsta greinÁlag á útsvar í Árborg afnumið á næsta ári