Sextíu ára hefð fyrir tónleikum á sumardaginn fyrsta

Karlakór Selfoss á æfingu í Selfosskirkju síðastliðið þriðjudagskvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það er 60 ára gömul hefð fyrir vortónleikum Karlakórs Selfoss á sumardaginn fyrsta. Tónleikarnir eru lokahnykkurinn á viðburðarríkum afmælisvetri kórsins en þeir verða haldnir í Selfosskirkju kl. 20:00 í kvöld.

Efnisskrá vortónleikanna er fjölbreytt en þar má finna þverskurð af lagavali kórsins undanfarin 60 ár. Eins og áður hefjast tónleikarnir á Árnesþingi Sigurðar Ágústssonar og á eftir fylgja margar klassískar karlakóraperlur, svo sem Fjallið Skjaldbreiður, Þú álfu vorrar yngsta land og Brimlending.

Þar má líka finna frumflutning á nýju lagi eftir Björgvin Þ. Valdimarsson, Sumarlandið, sem Björgvin tileinkaði kórnum í tilefni af 60 ára afmælinu. Þá flytur kórinn einnig Það brennur, eftir Egil Ólafsson, í nýrri útsetningu Skarphéðins Þórs Hjartarsonar, stjórnanda kórsins.

Söngmenn í kórnum eru tæplega 70 og hefur kórinn haft í mörg horn að líta á liðnum vetri. Hæst ber glæsilega afmælistónleika kórsins í byrjun mars ásamt Karlakór Reykjavíkur og Lúðrasveit Þorlákshafnar. Einnig söng kórinn á tónleikum í Skálholti ásamt Karlakór Stokkhólms í október, á sama stað með Fóstbræðrum í lok mars og á vel heppnuðum tónleikum í Salnum í Kópavogi í byrjun apríl þar sem safnað var í flygilsjóð Skálholtskirkju.

Jólatónleikar og jarðarfarasöngur eru einnig fastir liðir í starfi kórsins og á afmælisdaginn, þann 2. mars gaf kórinn út nýja hljómplötu, Í sólarátt, þar sem meðal annars má finna kirkjutónlist og jarðarfararsálma.

Sem fyrr segir verða vortónleikarnir haldnir í Selfosskirkju á sumardaginn fyrsta og í kjölfarið fylgja þrennir tónleikar; í Selfosskirkju þriðjudaginn 29. apríl kl. 20:00, í Fella- og Hólakirkju í Reykjavík fimmtudaginn 1. maí kl. 20:00 og lokatónleikarnir þetta vorið verða laugardaginn 3. maí í Skálholtsdómkirkju kl. 17:00.

Eins og undanfarin ár er stjórnandi kórsins Skarphéðinn Þór Hjartarson og píanóleikur er í fimum höndum Jóns Bjarnasonar.

Miðasala á tónleikana er við innganginn og kostar aðgöngumiðinn 5.000 krónur.

Fyrri grein„Vorum hræddir um að missa þetta hús“
Næsta greinSumar og vetur frusu saman