Um helgina er síðasta tækifæri til þess að skoða sýninguna Nautn og notagildi, myndlist og hönnun á Íslandi, en sýningarlok eru á sunnudaginn.
Sýningin hefur verið vel sótt, enda bæði skemmtileg og fróðleg.
Á sýningunni er efnt til samræðu verka eftir á annað hundrað höfunda í þeim tilgangi að kanna snertifleti milli myndlistar og hönnunar á Íslandi. Sýningin spannar tímabilið frá öðrum áratug síðustu aldar til samtímans og felur því í sér yfirlit myndlistar- og hönnunarsögu þar sem víða liggja saman þræðir. Áherslur eru meðal annars fólgnar í sýningarumgjörð sem skírskotar til heimilisins.
Heimilið er vettvangur þar sem mætast hlutir úr heimum myndlistar og hönnunar; hlutir er gefa tilverunni merkingu sem gjarnan er á óræðum mörkum nautnar og notagildis. Á sýningunni er sjónum beint að slíkum mörkum – en jafnframt að því landamæraleysi sem gjarnan einkennir samtímann – og skyggnst er eftir þeim sköpunarkrafti sem brýtur af sér höft og skilgreiningar.