Í dag er síðasta tækifærið til þess að skoða sýninguna TÓMIÐ – Horfin verk Kristins Péturssonar með athugsemdum Hugins Þórs Arasonar, Hildigunnar Birgisdóttur, Sólveigar Aðalsteinsdóttur og Unnars Arnar í Listasafni Árnesinga í Hveragerði.
Sýningin hefur verið vel sótt og hlotið jákvæð viðbrögð gesta. Í dag kl. 15 munu Huginn Þór og Sólveig sem bæði eiga verk á sýningunni ræða um vekin og þáttökuna í sýningunni.
Sýningarstjórinn Markús Þór Andrésson verður einnit til staðar.
Kristinn (1896-1981) sem fæddur var undir lok 19. aldar á að baki viðamikinn og fjölbreyttan feril þó verk hans hafi í gegnum tíðina ekki verið mjög sýnileg. Sýningarstjórinn valdi að beina sjónum sýningargesta að þeim verkum sem hann vann að síðustu æviárin sem eru framúrstefnuleg og í anda þeirra listamanna sem voru að endurskoða eðli og hlutverk málverksins m.a. með því að hlutgera það ýmist sem lágmynd, skúlptúr eða innsetningu.
Viðamestu verkaröð sína kallaði Kristinn Tómið, núllið, ekki neitt og þar kölluðust einstök verk á við umhverfi sitt eða urðu hluti af því. Mikill hluti þessara verka voru sérstaklega gerð til þess að passa inn í húsið Seyðtún, sem Kristinn byggði í Hveragerði, auk fjölda sjálfstæðra þrívíðra verka sem gjarnan voru unnin úr fundnum afgangsefnum og ámáluðum spónaplötum.
Sýningin er samstarfsverkefni með Listasafni ASÍ, sem á stærsta safn verka Kristins.