Nú er hið árlega jólabókaflóð í hæstu hæðum og fjórði og síðasti upplestur Bókabæjanna austanfjalls verður haldinn á Brimrót laugardaginn 14. desember klukkan 14:00.
Undanfarnar vikur hafa verið reglulegir upplestrar á Brimrót en á þann síðasta á þessari aðventu mæta þau Þórdís Þúfa Björnsdóttir, Hallgrímur Helgason, Auður Styrkársdóttir og Gróa Finnsdóttir og lesa upp úr nýútkomnum bókum sínum.
Auður er að skrifa um eina þekktustu persónuna í sögu Stokkseyrar, Þuríði formann, á meðan Hallgrímur er að ljúka þríleik sínum um Gest og Segulfjörð. Þórdís skrifar ögrandi og einlæga skáldævisögu sem heitir Þín eru sárin og sögusvið bókar Gróu er stórbrotin náttúra Breiðafjarðar í bókinni Eyjar.
Upplestrarnir eru hluti af hefðbundinni jólabókadagskrá Bókabæjanna austanfjalls á Brimrót þar sem boðið er upp á lítið sýnishorn af því allsnægtarborði sem íslenska jólabókaflóðið er.
Fjöldi bóka er líka til sölu á bókamarkaði og léttar veitingar verða í boði hússins.