Sigríður hreppti Rauðu hrafnsfjöðrina

Á aðalfundi lestrarfélagsins Krumma sl. föstudagskvöld veitti félagið Rauðu hrafnsfjöðrina fyrir forvitnilegustu kynlífslýsingu ársins í íslenskum skáldverkum.

Verðlaunin hlaut að þessu sinni Sigríður Jónsdóttir fyrir ljóðið Eins og blíðasti elskhugi í bókinni Kanill sem Sæmundur gefur út. Það var Karl Blöndal sem afhenti Sigríði hrafnsfjöðrina.

Rauða hrafnsfjöðrin var fyrst veitt 2007 og þá hreppti hana Eiríkur Örn Norðdahl fyrir Eitur fyrir byrjendur. 2008 varð Elísabet Jökulsdóttir hlutskörpust fyrir Heilræði lásasmiðsins, Hermann Stefánsson hreppti verðlaunin 2009 fyrir Algleymi, 2010 fékk Steinar Bragi Rauðu hrafnsfjöðrina fyrir Himininn yfir Þingvöllum og 2011 þau Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir og Magnús Þór Jónsson, Megas, fyrir Dag kvennanna – ástarsögu.

Verðlaunalýsingin er svohljóðandi:

Eins og blíðasti elskhugi

„Ég treysti honum því ég þekki hann.
Hann þekkir mig og veit hvað ég þarf.
Hann sýnir sig
ófeiminn eins og bráðger foli
ógeltur í apríl.
Ungur og hraustur með sperrtan böll
tilbúinn að bíða
viljugur að hlakka til.

Hann ber kremið á kónginn á sér.
Ég horfi á
sjálf ekki til í að sýna neitt.
En hann er ekki frekur og gerir ekki kröfur.
Þá finn ég töfra karlmannsins
og sprota hans
leggjast yfir mig.
Ókunnug efni streyma út í blóðið.
Munnvatn spýtist úr kirtlum.
Hann penslar á mér skautið með limkollinum
og allir lásar falla
klikk klikk klikk

Kannski verður það vont.

Hann leitar fyrir sér eins og maður á ís.
Maður með broddstaf.

Hann heldur utan um mig.
Ég held utan um hann og kem til hans meðan hann bíður.

Þegar hann kemur inn í mig
lætur líkaminn eins og hann hafi þráð það lengi
ekki tvær mínútur
búinn að gleyma að þarna var allt þurrt og lukt.
Ólíkindatól.

Elskhugi minn veit betur.
Hann þekkir mig betur en sig.

Hann fer eins og maður í djúpum snjó.
Stígur hægt niður og kannar.
Þar til öllu er óhætt.

Þegar karlinn hefur komið sér öllum fyrir
þegar ég hef meðtekið hann allan og vil meira
kemur hann og sækir laun blíðu sinnar.

Hann er bestur.

Þú ert bestur
segi ég.

Hann segir ekki neitt.
Hann gerir það sem hann meinar
og segir það sem hann vill.“

Aðrar tilnefningar til Rauðu hrafnsfjaðrarinnar 2012:

Stefán Máni – Feigð

Mennt er máttur – Þórður Sigtryggsson. Kaflar úr endurminningum. Vélritað hefur Elías Mar

Arnaldur Indriðason – Einvígið

Jón Kalman Stefánsson – Hjarta mannsins

Sólveig Eggerz – Selkonan

Fyrri greinHvalurinn kominn upp í fjöru
Næsta greinHvalurinn fjarlægður úr fjörunni