Hjónin Sigríður Kjartansdóttir og Gestur Áskelsson hlutu á dögunum lista- og menningarverðlaun Sveitarfélagsins Ölfuss árið 2020.
Í haust var auglýst eftir tilnefningum til verðlaunanna og bárust margar góðar tilnefningar. Eftir yfirferð þeirra var einróma samþykkt í bæjarráði að verðlaunin skyldu falla þeim Sigríði og Gesti í skaut.
„Sigríður og Gestur hafa bæði, frá unga aldri, verið ákaflega virk í tónlistarlífi Ölfuss og þá einkum Þorlákshafnar, þar sem bæði hafa búið alla tíð. Bæði hafa spilað á hljóðfæri frá örófi og síðan gert það að atvinnu sinni, bæði sem tónlistarkennarar við Tónlistarskóla Árnesinga og með því að vera í alls kyns hljómsveitum. Þá hafa þau bæði spilað með Lúðrasveit Þorlákshafnar nánast frá upphafi. Það er þó ekki síst þeirra óeigingjarna starf sem lýtur að kennslu, fræðslu og stuðningi við tónlistarnám barna og unglinga í sveitarfélaginu en þau hafa kennt tugum ungmenna á hljóðfæri og þessi börn og unglingar síðan mörg hver haldið áfram að nýta sér þessa kunnáttu fyrir áeggjan og stuðning þeirra hjóna. Ólíkir styrkleikar þeirra og síðan sameiginlegur áhugi, drifkraftur og samheldni hafa nýst okkar samfélagi ómetanlega vel,“ segir í greinargerð með valinu.
Þeim hjónum voru afhent verðlaunin um síðustu helgi og var verðlaunagripurinn að þessu sinni glæsilegt verk eftir Ágústu Ragnarsdóttur sem hannaði það sérstaklega með þau hjón í huga. Að auki var þeim fært gjafabréf á Hendur í höfn.