Sigrún Guðmundsdóttir opnar myndlistarsýningu í listasal Sólheima í Grímsnesi laugardaginn 8. apríl klukkan 15.
Sigrún útskrifaðist með Bakkalársgráðu frá Myndlistarbraut Listaháskóla Íslands 2010. Frá útskrift hefur hún tekið þátt í fjölda samsýninga hérlendis og erlendis, unnið við búningahönnun og stíliseringar, tekið ljósmyndir og kynnt íslenska myndlist erlendis.
Málverkið hefur alltaf verið henni hugleikið og er hún sífellt að kanna litafleti og litasamsetningar sem njóta sín einna helst í málverkum.
Serían sem Sigrún sýnir í listasal Sólheima, í samstarfi við Siggu Guðjónsdóttir, hefur verið unnin síðastliðin tvö ár en sumar myndir eru málaðar með þessa sýningu í huga. Sigrún segir að hugmyndin sé að abstrakt leyfi áhorfandanum að nota sitt hugmyndaflug til að skapa sinn heim, eins og hún gerði í sýningunni litróf Hafsins í Gallerí Laugalæk vorið 2022.
Listasalur Sólheima er inn af verslunininni Völu í kaffihúsinu Grænu könnunni. Sýningin stendur til 30. maí en í júní hefst árleg sumarsýning listamanna á Sólheimum, sem löng hefð er fyrir.