Sirkus Íslands hefur reist sirkustjaldið Jöklu í Sigtúnsgarðinum á Selfossi og er fyrsta sýning sirkussins kl. 17 í dag.
Sirkustjaldið Jökla er 13 metra hátt og 800 fermetrar að stærð og þar er pláss fyrir 400 áhorfendur. 25 sirkuslistamenn eru með í för, frá trúðum til loftfimleikafólks og alls þar á milli. Sirkus Íslands býður upp á sirkus af bestu gerð og þar er að vinna allt sem fólki dettur í hug þegar það hugsar um sirkus – nema dýr.
Þrjár sýningar eru í boði; S.I.R.K.U.S., Heima er best og Skinnsemi – fullorðinssirkus.
Sýningin S.I.R.K.U.S. er búin til með yngri börnin í huga en þó ekki á kostnað eldri áhorfenda. Litríkar persónur birtast á sviðinu og takast jafnvel á loft – og bófi reynir að stela senunni. Sýningin er skemmtilegt samkrull sirkusatriða úr öllum áttum svo úr verður ógleymanleg skemmtun.
Heima er best er alíslensk sirkusskemmtun þar sem öll fjölskyldan nýtur þess að horfa á ótrúlega leikni listamanna Sirkus Íslands. Grippli, húlla, trúðleik, loftfimleikum, einhjólalistum og mörgu fleira er blandað saman svo m svo úr verður sannkölluð sirkusupplifun. Öll tónlistin sem notast er við í sýningunni er íslensk svo útkoman er heimaræktaður íslenskur sirkus af bestu gerð. Heima er best er fjórða og stærsta fjölskyldusýning Sirkus Íslands og sú fyrsta sem sniðin er fyrir og sett upp í alvöru sirkustjaldi.
Skinnsemi – Fullorðinssirkus er sirkussýning sem er ekki fyrir börn. Það er fátt skynsamlegt við Skinnsemi. Skinnsemi er kabarettsýning með sirkusívafi – þar sem lagt er upp úr fullorðinshúmor og stundum sýnt smá skinn. Sýningin er bönnuð innan 18 ára. Fyndið, fullorðins, frábært.