Sirra er höfundur Kærleikskúlunnar 2021

Sirra með Kærleikskúluna 2021. Ljósmynd/kaerleikskulan.is

Eitt ár eftir Sirru Sigrúnu Sigurðardóttur er Kærleikskúla ársins 2021. Þetta er nítjánda Kærleikskúlan sem Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra gefur út en markmið með sölu hennar er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna.

„Kúlan er umvafin teikningu sem lýsir sólargangi eftir árstíma á Íslandi, allt frá löngum björtum sumarnóttum að vetrarsólstöðum þegar birtu nýtur aðeins í örfáar klukkustundir á dag. Teikningin sýnir ólík birtustig sólarhringsins og þá afgerandi árstíðabundnu sveiflur sem við upplifum hér við heimskautsbaug,“ segir Sirra, þegar hún er beðin um að lýsa verkinu.

„Litirnir fimm sem hverfast um kúluna tákna; dögun, birtingu, dagbjart, sólarlag og myrkur. Litirnir sem eru mest áberandi eru; gulur fyrir hábjartan dag og blár fyrir myrkur næturinnar, þar á milli raða sér rauðgulur, bleikur og fjólublár fyrir ljósaskiptin. Verkið reynir að fanga eitthvað sem við þekkjum svo vel í okkar daglega amstri en talar einnig til stærra samhengis okkar, til síbreytilegrar stöðu okkar í himingeimnum þar sem við snúumst um ás á sporbaug um sólu.“

Sirra hefur haldið einkasýningar í Listasafni Reykjavíkur, Nýlistasafninu, Listasafni Árnesinga, Hafnarborg og Kling & Bang. Þá hefur hún tekið þátt í fjölda sýninga víða um heim, þar á meðal í Kína, Finnlandi og á Englandi. Sirra hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir list sína og m.a. fengið styrki og viðurkenningar úr listasjóðum Svavars Guðnasonar, Guðmundu Andrésdóttur og verðlaun Guðmundu S. Kristinsdóttur.

Söluaðilar Kærleikskúlunnar á Suðurlandi eru Byggðasafn Árnesinga á Eyrarbakka, Listasafn Árnesinga í Hveragerði og Blómaval á Selfossi og er sölutímabilið frá 9. til 23. desember. Allur ágóði af sölunni rennur óskiptur til sumarbúða Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra í Reykjadal.

Kærleikskúlan 2021. Ljósmynd/kaerleikskulan.is
Fyrri greinNeyðarkall frá Sjóðnum góða
Næsta greinGuðni þakkaði hlý orð í sinn garð