Hljómsveitin Skjálftavaktin heldur tónleika á Skyrgerðinni í Hveragerði í kvöld og fylgir þar eftir frábærum tónleikum sem haldnir voru á Midgard á Hvolsvelli um síðustu helgi.
„Sigurður Ingi, hljómsveitarstjóri og bassaleikari, stofnaði Skjálftavaktina fyrir 10 árum síðan og hugmyndin var að vera dálítið virk á afmælisárinu. Við fengum gríðarlega góðar undirtektir á Midgard um síðustu helgi og þess vegna er mikil tilhlökkun fyrir kvöldinu í kvöld á Skyrgerðinni,“ segir Bessi Theodórsson, söngvari Skjálftavaktarinnar, í samtali við sunnlenska.is.
„Við verðum í fantaformi hjá Elfu og Helgu á Skyrgerðinni og mælum einstaklega mikið með því að allir kíki við tímanlega og njóti matar og drykkjar fyrir tónleikana, sem hefjast um klukkan níu,“ bætir Bessi við.
Virk fyrir luktum dyrum
Hljómsveitin Skjálftavaktin er skipuð tíu sérvöldum tónlistarmönnum og konum – flestum af Suðurlandi. Sveitin hefur verið starfandi frá árinu 2009 og hefur síðan þá verið mjög virk en að mestu að baki luktum dyrum.
„Hugmyndin í upphafi var og er að spila eingöngu skemmtileg bigband lög og þau eru nokkur til. Við spilum nánast hvað sem er og höfum gaman að því að prófa nýja músík. Það eru nokkur „ný” lög á lagalistanum núna frá því að við spiluðum síðast. Stevie Wonder er í miklu uppáhaldi, ásamt Chicago, Eart Wind & Fire og fleirum og svo höfum við líka verið að daðra við James Brown, Tower of Power, Blues Brothers og fjölda annarra flytjenda og höfunda,“ segir Bessi.
„Það hefur verið okkar reynsla að sitjandi tónleikar ganga sjaldnast upp, þó það sé planið í upphafi. Þessi tónlist og þessi taktur virðist laða fólk í sveiflu. Og það er bara hið besta mál. Enda þegar þessi 10 manna hljómsveit fer af stað verður lítið stoppað.“
Lofa prýðilegu fjöri
Auk Bessa og Sigurðar Inga eru í hljómsveitinni þau Guðjón Þorsteinn Guðmundsson, trommur, Karl Hákon Karlsson, gítar, Jóhannes Jóhannesson, hljómborð, Örlygur Ben, saxófónn, Jóhann Ingvi Stefánsson, trompet, Eyþór Frímannsson, básúna og söngkonurnar Hjördís Ásta Þórisdóttir og Jóhanna Ómarsdóttir.
Skjálftavaktin lofar prýðilegu fjöri í kvöld en tónleikarnir hefjast klukkan 21:00, miðaverð er einungis 1.500 krónur og verður miðasala við hurðina. Tónleikarnir eru styrktir af Menningarsjóði Suðurlands.
Hér að neðan er lítið tóndæmi og þar sem það er föstudagur þá er um að gera að hækka í botn og keyra sig í gang fyrir helgina.