Félagarnir í Hr. Eydís senda frá sér alvöru föstudagsslagara í dag en að þessu sinni er það lagið Hungry Like the Wolf sem strákarnir frá Birmingham, „the fab five“ í Duran Duran gerðu frægt á sínum tíma.
Hungry Like the Wolf kom út árið 1982 og varð fljótlega mjög vinsælt á Bretlandseyjum. Það var hins vegar einhver tregða í útvarpsstöðvum í Bandaríkjunum. Duran-liðar voru hins vegar svo snjallir að veðja á að gera góð tónlistarmyndbönd með sínum lögum. Það borgaði sig svo sannarlega því nýstofnuð MTV setti Hungry Like the Wolf í „powerplay“ og þá var slagkraftur lagsins orðinn það mikill að ekki var hægt að streitast lengur á móti. Útvarp í Bandaríkjunum fór að spila lagið og í kjölfarið rauk það upp vinsældalistana.
Margir muna svo eftir laginu af tónleikaplötunni Arena sem kom ut í nóvember 1984 og rataði margan unglings-jólapakkann það árið.
„Duran Duran var úti um allt á þessum tíma, ekki var hægt að fletta blaði án þess að væri mynd af þeim félögum. Fólk beið í ofvæni í bókabúðum eftir nýjasta BRAVO-blaðinu sem var stútfullt af myndum af strákunum. Það skildu þó fáir nokkuð í blaðinu því það var allt á þýsku,“ segir Örlygur Smári söngvari og gítarleikari Hr. Eydís og brosir að minningunni. „Svo vildu auðvitað allir vera með Duran-hárgreiðslu, einhverskonar delux-síttaðaftan með strípum… ég þar á meðal“.