Síungur karlakór fagnar sextugsafmæli

Unnar Steinn Guðmundsson, formaður Karlakórs Selfoss, á æfingu kórsins í Sunnulækjarskóla í gærkvöldi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Karlakór Selfoss fagnar 60 ára afmæli sínu með stórtónleikum næstkomandi laugardag, þann 1. mars, en kórinn var stofnaður 2. mars árið 1965.

Tónleikarnir verða haldnir í Fjallasal Sunnulækjarskóla á Selfossi og sérstakir gestir verða Karlakór Reykjavíkur og Lúðrasveit Þorlákshafnar. Kórarnir munu syngja sitt í hvoru lagi og svo saman við undirleik lúðrasveitarinnar.

„Þetta verða hátíðartónleikar, sannkallaðir stórtónleikar með þekktum karlakórslögum sem kórinn hefur sungið í gegnum árin. Það hefur gengið vel að æfa í vetur og kórstarfið er alltaf skemmtilegt. Kjarninn í dagskrá vetrarins eru gamlir slagarar sem söngmennirnir þekkja vel, enda margir í okkar röðum sem hafa verið lengi í kórnum,“ segir Unnar Steinn Guðmundsson, formaður Karlakórs Selfoss, í samtali við sunnlenska.is. „En kórinn er síungur og yngist jafnvel með hverju árinu.“

Á laugardagskvöldið verður svo afmælisveisla, hátíðarkvöldverður fyrir kórsfélaga, konur þeirra og gesti í Hvítahúsinu en kórinn hefur alla tíð verið vel studdur af Kvennaklúbbi Karlakórs Selfoss.

„Þar verður fagnað fram undir morgun og síðan þegar við vöknum á afmælisdaginn sjálfan, á sunnudaginn, verður vonandi fimmta hljómplata kórsins komin inn á helstu streymisveitur. Hún var tekin upp í Skálholtsdómkirkju nú í upphafi febrúar og þar kveður við hátíðlegan tón en þemað er jarðarfarar- og kirkjutónlist með orgelleik Jóns Bjarnasonar,“ bætir Unnar Steinn við.

Að sögn formannsins er ýmislegt fleira á dagskrá kórsins í vor en hann mun syngja með karlakórnum Fóstbræðrum í Skálholti 29. mars og síðan verða hefðbundnir vortónleikar í Selfosskirkju á sumardaginn fyrsta og venju samkvæmt í framhaldinu í Fella- og Hólakirkju og Skáholtskirkju.

Forsala á afmælistónleikana er hjá Karli úrsmið á Eyravegi 38 til klukkan 18 á næstkomandi föstudag og svo á laugardaginn við innganginn. Kynnar verða hinir eldhressu Davíð Ólafsson og Stefán Helgi Stefánsson. Stjórnandi Karlakórs Selfoss er Skarphéðinn Þór Hjartarson og píanóleikari Jón Bjarnason.

Karlakór Selfoss við upptökur á nýju plötunni í Skálholti á dögunum. Ljósmynd/Björgvin Magnússon
Fyrri greinEgill með silfur á meistaramótinu
Næsta greinFjórföldun á stuðningi við Guðrúnu