Jazz undir fjöllum, árleg jazzhátíð í Skógum undir Eyjafjöllum, verður haldin í sextánda sinn á morgun, laugardaginn 6. júlí.
Aðaltónleikar hátíðarinnar fara fram í félagsheimilinu Fossbúð laugardagskvöldið 6. júlí kl. 21:00. Þar kemur fram tríó gítarleikarans Björns Thoroddsen ásamt söngkonunni og fiðluleikaranum Unni Birnu Bassadóttur. Sigurgeir Skafti Flosason leikur á bassa og Ásgeir Óskarsson á trommur. Þau munu flytja fjölbreytta dagskrá uppáhaldslaga úr ólíkum áttum á sinn hátt, spjalla og grínast.
Í Skógakaffi verður boðið upp á tónlist laugardaginn 6. júlí frá kl. 14-17. Þar verða óformlegri tónleikar eða nokkurskonar jam session þar saxófónleikarinn Sigurður Flosason leiðir kvartett sem skipaður er Vigni Þór Stefánssyni á píanó, Leifi Gunnarssyni á kontrabassa og Erik Qvick á trommur. Sérstakur gestur verður brasilíski píanóleikarinn og söngvarinn Paulo Malaguti. Ókeypis er inn á þessa tónleika og reiknað með að gestir geti komið og farið að vild á meðan á tónleikunum stendur.
Þess má geta að óvenju margir þátttakendur á hátíðinni eru ýmist búsettir eða uppaldir á Suðurlandi þannig að hér verður á ferðinni sannkallaður sjóðandi suðurlands jazz!
Hægt er að skoða facebook síðu viðburðarins hér.