Fimmtudagskvöldið 21. nóvember frá kl. 20-21 bjóða skáldin Steinunn Sigurðardóttir og Harpa Rún Kristjánsdóttir í spjall og léttar veigar í Bókakaffinu á Selfossi.
Þær stöllur munu lesa úr glænýjum ljóðabókum sínum, en einnig lesa þær ljóð hvor annarrar auk þess að ræða skáldskapinn, skriffærið, innblásturinn og ljóðið.
„Við hlökkum afskaplega mikið til fimmtudagsins og vonumst til að sjá sem flest. Ég er persónulega afar spennt að sjá hvort svona nokkuð virki hér á Selfossi. Ég hef auðvitað vitað af Steinunni alla tíð og litið mikið upp til hennar, en mig minnir að við höfum kynnst í Bókakaffinu. Þá var ég að kenna skáldsöguna Ástin fiskanna eftir Steinunni upp í Háskóla og fannst mikið til koma að rekast á höfundinn,“ segir Harpa Rún í samtali við sunnlenska.is.
Harpa segir að þær Steinunn verði búnar að undirbúa spjallið þeirra en voni að fæstar spurningarnar komi frá þeim.
„Bækurnar eru báðar að einhverju leiti um æviskeið og tíma og ákveðinn hverfulleika. Það eru líka kvenpersónur sem mynda ákveðinn þráð. Og eflaust ýmislegt fleira,“ segir Harpa Rún aðspurð hvort bækurnar þeirra eigi eitthvað sameiginlegt.
Harpa Rún er rétt að hefja sinn feril, en hún hlaut á dögunum Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir ljóðabókina Eddu. Í umsögn dómnefndar um Eddu segir meðal annars: „Gleðin og sorgin takast á …” og „Edda er heillandi verk þar sem hugsanir um æsku og elli fléttast saman …”
50 ára höfundarafmæli Steinunnar
Steinunn fagnar um þessar mundir 50 ára höfundarafmæli sínu, ásamt útkomu ljóðabókarinnar Dimmumót. Dimmumót Steinunnar er jöklabálkur, með sjálfsævisöguívafi, um breytta ásýnd jökulsins “hennar”, Vatnajökuls og nýja heimsmynd á nýjum tímum. Einnig heyrast raddir úr sveitunum undir jökli en návígi íbúanna þar við jökulinn er einstakt í heiminum.
Harpa býr í Hólum á Rangárvöllum og er þar búandkerling hjá foreldrum sínum. Þá hefur hún MA próf í bókmenntum og starfar við ritstjórn, útgáfu og tilfallandi. Hún hefur sent frá sér tvær ljóðmyndabækur í samstarfi við ljósmyndara.
Steinunn hefur búið í Frakklandi og Þýskalandi, en hún á sitt annað heimili á Selfossi. Hún gegnir nú í haust starfi Jónasar Hallgrímssonar í ritlist við Háskóla Íslands.
Aðgangur er ókeypis meðan húsrúm leyfir og eru gestir eru hvattir til að spyrja krefjandi spurninga.