Sunnudaginn 26. nóvember kl. 16, lesa rithöfundar úr nýútkomnum verkum sínum í Byggðasafni Árnesinga á Eyrarbakka. Í ár koma í stássstofuna þau Jónína Óskarsdóttir, Lilja Árnadóttir, Nanna Rögnvaldardóttir, Ófeigur Sigurðsson og Sölvi Björn Sigurðsson.
Jónína, bókasafnsfræðingur sem á ættir að rekja til Eyri og Ásabergs á Eyrarbakka, les úr viðtalsbók sinni Sitthvað af konu minni hverri – Konur á Eyrarbakka. Lilja Árnadóttir kynnir bókina Með verkum handanna sem fjallar um íslenskan refilsaum fyrri alda eftir textíl- og búningafræðinginn Elsu E. Guðjónsson. Lilja, fyrrum sviðsstjóri Þjóðminjasafns, er jafnframt ritstjóri bókarinnar.
Nanna Rögnvaldardóttir sem er landsþekkt fyrir matreiðslubækur sínar ríður nú á vaðið með sína fyrstu skáldsögu Valskan. Ófeigur Sigurðsson sem hefur oft fengist við söguna í verkum sínum les úr bók sinni Far heimur, far sæll þar sem rannsókn á Kambsráninu fræga er færð í nýjan búning. Tvær bækur koma úr smiðju Sölva Björns Sigurðssonar þetta árið, ljóðabókin Anatomía fiskanna og skáldsagan Melankólía vaknar.
Gestir eru hjartanlega velkomnir á skáldastund í Húsinu. Það verður heitt á könnunni og í borðstofu má skoða jólasýninguna þar sem margt gleður augað.