Skálholtsstaður – Menning á miðvikudögum í maí

Ljósmynd/Aðsend

Alla miðvikudaga í maí verður boðið upp á menningar- og fræðslugöngur í Skálholti. Um er að ræða fræðsluerindi og göngur sem tengjast Skálholti á einhvern hátt.

Göngurnar hefjast allar við Skálholtskirkju klukkan 18:00 á miðvikudögum í maí. Um er að ræða um það bil klukkutíma langar göngur sem ættu að henta öllum, þær eru stuttar og á jafnsléttu að mestu en gengið er um umhverfi kirkjunnar.

8. maí kl. 18:00 Þorláksleið vígð
Kristján Björnsson vígslubiskup vígir Þorláksleið en nú er búið að varða leiðina með skiltum. Gangan hefst við kirkjuna og verður gengið að Stekkatúni og tilbaka, gangan tekur um 1,5 klst í heildina.

15. maí kl. 18:00 Ragnheiðarganga með Friðrik Erlingssyni
Friðrik Erlingsson þekkir sögu Ragnheiðar Brynjólfsdóttur einna best og mun leiða gönguna og segja söguna um ástir og örlög Ragnheiðar. Gangan hefst við kirkjuna og gengið er um nánasta umhverfi hennar.

22. maí kl. 18:00 Söguganga með Bjarna Harðar
Bjarni Harðar gengur um Skálholtsstað og segir sögur eins og honum einum er lagið. Gengið er frá kirkjunni og um Skálholtsstað og farið yfir ýmsar sögur og sögupersónur úr Skálholti.

29. maí kl. 18:00 „Að öllu tilliti merkisfrú“ – Valgerður Jónsdóttir biskupsfrú
Halldóra Kristinsdóttir sérfræðingur hjá Landsbókasafni leiðir gesti í sannleikann um Valgerði Jónsdóttur biskupsfrú í Skálholti. Fræðsluerindið fer fram í kirkjunni og farið verður í stutta göngu á eftir á safnið og út á fornleifasvæðið.

Allar göngurnar eru ókeypis og þið eruð öll hjartanlega velkomin.

Veitingastaðurinn Hvönn er nú opinn alla daga og öll kvöld og um að gera að kynna sér tilboð og fá sér veitingar í tengslum við göngurnar.

Nánari upplýsingar um viðburði í Skálholti á nýrri heimasíðu Skálholtsstaðar.

Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinÞjótandi bauð lægst í Hvammsveg
Næsta greinSigurganga Selfyssinga heldur áfram