SKÁLORG – Söngur og orgel í Skálholtskirkju

Gunnlaugur nam söng í Haag í Hollandi. Á laugardaginn mun hann halda tónleika í Skálholti ásamt Pétri Nóa. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Söngvarinn Gunnlaugur Bjarnason og orgelleikarinn Pétur Nói Stefánssson halda tónleika 3. ágúst í Skálholti klukkan 20:00 með fjölbreyttum verkum eftir tónskáld eins og Jón Leifs, Magnús Blöndal, Inga T. Lárusson, Jórunni Viðar, Beethoven og fleiri.

Pétur og Gunnlaugur eru Sunnlendingar og hófu báðir tónlistarnám sitt við Tónlistarskóla Árnesinga. Pétur er nú í námi í orgelleik við Listaháskóla Íslands og starfar einnig sem organisti við Eyrarbakkakirkju. Hann hefur haldið tónleika í Selfosskirkju og Hóladómkirkju og undanfarin sumur hefur hann starfað sem bæjarlistamaður Hveragerðis og hélt reglulega hádegistónleika í Hveragerðiskirkju.

Gunnlaugur hóf söngferil sinn árið 2020 þegar hann hlaut fyrstu verðlaun í söngvarakeppninni Vox Domini og sömuleiðis aðalverðlaun keppninnar, titilinn Rödd ársins. Frá því hefur hann stigið á svið víðsvegar um landið, t.d. Sönghátíð í Hafnarborg, Kúnstpásu Íslensku óperunnar, Ung Nordisk Musik í Reykjavík og víðar. Þá kom hann fram á Bergen Festspillene í Bergen 2023. Árið 2022 söng Gunnlaugur fyrsta hlutverk í óperunni Mærþöll eftir Þórunni Guðmundsdóttur sem hlaut afar góðar viðtökur áhorfenda og gagnrýnenda.

Ekki er rukkaður aðgangseyrir á tónleikana.

Pétur Nói Stefánssson. Ljósmynd/Aðsend
Gunnlaugur Bjarnason. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinEiga vel yfir þúsund leiki samtals
Næsta greinStórt skref í átt að settu marki