Menningarveisla Sólheima heldur áfram og í dag klukkan 14 mun Valgeir Guðjónsson skemmta gestum og gangandi í Sólheimakirkju.
Valgeir er góðvinur Sólheima og hefur oft skemmt þar við ýmis tilefni. Tónleikagestir munu því eiga von á þægilegri stemmningu, hnyttnum vangaveltum og síðast en ekki síst frábærri tónlist.
Þegar Valgeir hefur lokið sér af eða um klukkan 15 hefst skátadagskrá í Sesseljuhúsi. Jón Ingvar Bragason, formaður dagskrárráðs BÍS stýrir skátaskemmtun og -leikjum. Skátar fagna því í ár að 100 ár eru síðan skátastarf hófst hér á landi. Skátar og annað gott fólk er því hvatt til þess að heimsækja Sesseljuhús og sjá hvað verður á boðstólum þar.
Margar sýningar eru í gangi í tilefni af menningarveislunni. Í Ingustofu er sýningin „Svona gerum við“ en það er samsýning vinnustofa Sólheima. Í Íþróttaleikhúsinu er sýningin „Svona erum við“ en Pétur Thomsen ljósmyndari myndaði íbúa Sólheima í raunstærð við leik og störf. Í Sesseljuhúsi er sýningin „Vistvænt skipulag“ sem meistaranemar í byggingaverkfræði og skipulagsfræði við Háskólann í Reykjavík gerðu. Loks er að finna sérkennileg tröll upp í trjám hjá versluninni Völu þetta er sýningin „Tröll í trjám“ eftir Lárus Sigurðsson.
Sýningarnar, verslunin Vala og kaffihúsið Græna kannan eru opin alla daga vikunnar 9 – 18 á virkum dögum og 12 – 18 um helgar og það er ókeypis á alla viðburði og sýningar menningarveislunnar.