Um þessar mundir stendur yfir ljósmyndsýningin Rófubóndinn í borðstofu Hússins á Eyrarbakka.
Á sýningunni sýnir Vigdís Sigurðardóttir áhugaljósmyndari eitt ár í lífi rófubóndans Guðmundar Sæmundssonar á Sandi en hann hefur ræktað gulrófur á Eyrarbakka í yfir fimmtíu ár.
Rjómaskortur leiddi til ljósmyndaverkefnis
„Eftir að hafa fengið góðar ráðleggingar og ábendingar um ljósmyndun frá vinafólki mínu, Magnúsi Karel og Ingu Láru, þegar ég leit inn til þeirra í Laugabúð einn daginn til að fá mér appelsín með lakkrísröri, þá var ég farin að horfa í kringum mig eftir einhverju viðfangsefni fyrir heimildaseríu í ljósmyndaformi,“ segir Vigdís í samtali við sunnlenska.is
„Einhverjum dögum síðar var ég stödd í sjoppunni hér á Eyrarbakka að kaupa rjóma í köku fyrir hið árlega 1. maí kaffi Kvennfélags Eyrarbakka en hálft þorpið bakar fyrir kaffisamsætið og gefur. Því var allur rjóminn í sjoppunni á þrotum og við Guðmundur á Sandi slógumst um síðustu dropana í sjoppunni. Hann var þó ögn á undan mér!“ segir Vigdís í samtali við sunnlenska.is.
„Á meðan hann borgaði þá tók ég eftir því að þarna var hann í vinnugallanum og traktorinn stóð fyrir utan, hann var greinilega nýkominn úr rófugörðunum. Ég manaði því sjálfa mig upp í að spyrja hann hvort ég mætti elta hann í heilt ár og mynda hann að störfum í rófunum. Guðmundur varð nú aðeins hvumsa yfir spurningunni og hló en sagðist nú vera síðasti móhíkaninn í þessu. Ég sagði honum að hugsa málið og ég myndi hringja í hann seinna í vikunni. Þá sló hann til,“ segir Vigdís.
Vigdís segir að það hafi komið henni á óvart hvað hún vissi lítið um rófnarækt og þá vinnu sem liggur að baki. „Þetta er líkamlega erfið vinna og þó svo mikið af vinnunni fari fram í traktor þá sat Gummi megnið af tímanum þannig að hann snéri hálfur aftur. Þegar rófurnar voru teknar upp þá er það allt gert með höndum og kálið skorið af, það er því mikið verið að bogra. Gummi segist þó aldrei hafa fengið í bakið á þessum 53 ára ferli sínum í rófurækt.“
Mikið líf í rófugarðinum
Að sögn Vigdísar gekk vel að taka myndirnar. „Gummi er svo líflegur og skemmtilegur og hann hringdi alltaf í mig þegar hann var að fara að gera eitthvað nýtt. Ég gerði mér líka far um að mæta nokkrum sinnum í sama verkið því veður og aðstæður geta verið breytilegar. Ég vildi ná sem fjölbreyttustum myndum.“
Margt eftirminnilegt gerðist á þessu ári sem Vigdís myndaði Guðmund. „Ég get til dæmis nefnt þegar plógurinn brotnaði eitt skiptið og þá var engin hjálp í mér, ég stóð bara þarna og tók myndir af veseninu á meðan Gummi stumraði yfir þessu og tautaði „þetta er ljóta helvítið“. Það rötuðu myndir af þessu veseni á sýninguna. Svo fannst mér skemmtilegt hvað það færðist mikið líf í rófugarðinn þegar peyjarnir mættu með Gumma um haustið að taka upp. Þá var sest í pásu í skófluna á traktornum hans Gumma og drukkið vatn og um leið gantast saman. Ég hefði vel getað hugsað mér að verða ein af peyjunum og eyða mínum helgum í að taka upp rófur í íslenskri veðráttu,“ segir Vigdís.
Skemmtileg áskorun
„Ég er nú ekkert menntuð í ljósmyndun, bara áhugaljósmyndari og nörd. Menntun mín er mastersgráða í sjávarlíffræði. Ég hef hins vegar haldið nokkrar minni ljósmyndasýningar og hafa allar verið með landslagsljósmyndun. Því fannst mér skemmtileg áskorun að fara út í heimildaljósmyndun en það má vel sjá áhrif landslagsljósmyndunar í myndunum af Gumma í rófugörðunum,“ segir Vigdís
„Þessi sýning er bæði fyrir alla sem hafa áhuga á rófnarækt, traktorum eða landbúnaði almennt, en einnig þá sem hafa gaman af ljósmyndum af ekta íslenskum aðstæðum. Þetta eru litríkar myndir sem gefa skemmtilega sýn á handverk sem fæst okkar þekkja, í dæmigerðu íslensku veðri,“ segir Vigdís sem bætir því við að viðtökurnar hafa verið langt fram úr væntingum og hafi opnunin verið mjög vel sótt.
„Það var vel við hæfi að Gummi kæmist á Byggðasafn Árnesinga með sitt ævistarf. Hann er Eyrbekkingur í húð og hár eins og ég, því kom ekki annað til greina en að þessi sýning yrði í okkar þorpi. Þegar ég nefndi þessa hugmynd við Lýð Pálsson safnstjóra þá stökk hann á þetta svo það var ákveðið að Rófubóndinn yrði sumarsýning safnsins 2019,“ segir Vigdís og bætir því við að hún voni að safnið vilji eiga myndirnar að sýningu lokinni. „Kannski hún verði þá sett upp aftur eftir 50 ár eða svo?“
Hefði ekki hægt að gera þetta seinna
Sýning Vigdísar er merkileg fyrir margra hluta sakir. „Það sem enginn vissi fyrirfram var að þetta yrði síðasta sumar Gumma í rófnarækt en hann lenti í veikindum sem komu í veg fyrir að hann héldi áfram. Það var því ágætt að ég skyldi mana mig upp í sjoppunni að spyrja Gumma hvort ég mætti elta hann í heilt ár, því það hefði ekkert verið hægt að gera það seinna,“ segir Vigdís að lokum sem vill koma á framfæri þakklæti til Gumma og svo Lindu og Lýðs hjá Byggðarsafninu. „Án aðkomu þeirra hefði þessi sýning aldrei orðið.“
Sýningin stendur yfir til 1. september næstkomandi.