Listakonan Kristrún Helga Marinósdóttir á Selfossi, betur þekkt sem Dúdda, hannar einstök ullarverk sem prýða veggi heimila fjölmarga Íslendinga.
„Ég hef alltaf haft mjög mikla þörf fyrir að skapa og það gerist mjög sjaldan að mér leiðist. Ég hef í nokkur ár verið í því að skapa, fyrst plaköt, svo kertapakka og það sem er nýjast hjá mér eru ullarverkin sem ég hef verið að búa til síðan 2019. Ég hef verið kölluð Dúdda síðan ég var lítil stelpa og það var einhvern veginn lang eðlilegast fyrir mig að nota það nafn fyrir mín verk,“ segir Dúdda í samtali við sunnlenska.is.
„Fólk hefur verið mjög hrifið af verkunum. Ég hef lang mest verið að vinna með hringformið í ýmsum stærðum en hef aðeins verið að verið að prófa að gera kassalaga verk sem ég hef látið ramma inn og þau koma mjög skemmtilega út.“
Breyta um útlit eftir birtustiginu
„Verkin mín koma ótrúlega skemmtilega út á vegg. Þau poppa svolítið út úr veggnum og draga mann svolítið að sér og fá mann til þess að vilja snerta og finna mýktina. Þau hafa góð áhrif á hljóðvist og koma bæði skemmtilega út ein og sér og einnig í bland með öðrum verkum. Ljós og skuggar falla fallega á þau. Ég sjálf elska að sitja í sófanum mínum um helgar með tebollann minn og fylgjast með verkunum á veggnum breyta um útlit eftir því hvernig birtan flæðir inn um gluggann,“ segir Dúdda en ullarverkin hennar koma í allskonar stærðum og formum.
„Það er kannski svolítil klisja að segja það en ég fæ minn innblástur aðallega úr íslenskri náttúru. Til dæmis frá mosa og jurtum og svo snjó, vatni, hrauni og steinum. Mér þykir ótrúlega skemmtilegt að búa til verk sem túlka kulda og eitthvað sem er hart með ullinni með sinni hlýju og mýkt. Enn sem komið er þá bý ég verkin alltaf til eins og ég sé að horfa niður á viðfangsefnið.“
Vantaði verk fyrir ofan sófann sinn
Aðspurð hvernig það hafi komið til að hún fór að gera listaverk úr ull segir Dúdda það hafa verið hálfgerða tilviljun. „Upphaflega vantaði mig sjálfa verk fyrir ofan sófann hjá mér og var að reyna að vefa með ull í hringformi en sama hvað ég reyndi þá náði ég ekki því útliti og áferð sem ég var að reyna að gera. Fyrir nokkrum árum hafði ég unnið með kembu þar sem ég lék mér að því að þæfa hana og datt því í hug að nota hana á bakgrunnana sem ég nota og það kom svona skemmtilega út. Ég fór fljótt að fá mjög góð viðbrögð og ég ákvað því að prófa mig áfram með fleiri hugmyndir. Ég hef aðallega verið að selja verkin í gegnum Facebook og Instagram en síðan seint í sumar hafa verkin mín líka verið til sölu og sýnis í HÚM stúdíó á Selfossi.“
Kerti með skilaboðum
Dúdda hefur einnig verið að gera kertapakka með leynilegum skilaboðum sem hafa heldur betur slegið í gegn. „Í nokkur ár hef ég búið til plaköt þar sem ég set falleg orð og línur aðallega yfir myndir sem ég tek úti í náttúrunni. Auk þess hef ég verið að búa til kertapakka með leynilegum skilaboðum sem koma í ljós þegar vaxið bráðnar. Það er líka skemmtilegt að segja frá því að ég hef tekið á móti nokkrum hópum í haust í HÚM stúdíó þar sem fólk hefur getað komið, átt notalega kvöldstund og búið sjálft til sín kerti,“ segir Dúdda að lokum.
Hægt er að fylgjast með Dúddu á Instagram.