Skemmtilegt að gera myndir sem vekja allskonar tilfinningar

Edda Linn við eitt af verkum sínum í Húm Stúdíó. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Listakonan Edda Linn Rise gerir einstakar teikningar undir listamannsnafninu Krummafótur. Myndirnar þykja pólitískar jafnt sem húmorískar og hafa vakið mikla athygli.

„Ég byrjaði að teikna um leið og ég lærði að halda á litum held ég. Ég hef alla ævi teiknað mikið,“ segir Edda í samtali við sunnlenska.is.

Ótrúlegar viðtökur
Þrátt fyrir að hafa teiknað alla ævi er bara stutt síðan Edda kom út úr skápnum með teikningarnar sínar. „Jahh, það er nú bara „ný skeð.” Þær stöllur í Húm Stúdíó voru að opna og sameiginleg vinkona okkar allra, hún Margrét Birgitta Davíðsdóttir, vissi af því að ég ætti það til að teikna. Hún og maðurinn minn (Ómar Vignir Helgason) urðu þess valdandi að ég endaði með myndir í Húm. Þetta hefur allt gerst mjög hratt, og þar sem þetta var aldrei á dagskrá hjá mér hefur þetta verið mikil og erfið, en um leið gleðileg áskorun.“

„Viðtökurnar hafa verið ótrúlegar. Ég get bara í fyllstu einlægni sagt að þetta hefur komið mér alveg agalega mikið á óvart,“ segir Edda og bætir því við að það hafi örugglega margir í kringum hana ekki haft hugmynd um að hún gæti teiknað, því að hún var ekkert að tala um þetta

Alvarlegur svipurinn á forfeðrunum fallegur
Edda segir að hún fái innblástur eiginlega hvaðan sem er. „Stundum er það bara náttúran, börnin mín, list sem verður á vegi mínum, stundum bara eitthvað sem ég heyri, lykt sem ég finn eða hvað sem er. Ég fer reglulega til Berlínar að heimsækja bróður minn og fjölskyldu, sú borg er ekkert nema innblástur við hvert fótmál, en veggjalist þykir mér alltaf svo áhugaverð og er hún nú eitt af einkennum borgarinnar.“

„Ef ég fæ „ritstíflu” skoða ég yfirleitt gamlar myndir í leit að innblæstri, t.d. fletti ég iðulega upp í Sögu Eyrarbakka eða fer á myndasetur.is en þar er stútfullt af fallegum gömlum myndum úr héraði. Mér finnst alveg sérstaklega gaman að gefa myndum úr fortíðinni nýjan blæ en þá eru þjóðbúningar mikið uppáhald og alvarlegur svipurinn á forfeðrunum eitthvað svo fallegur.“

Vill að myndirnar veki eitthvað innra með fólki
„Ég myndi kannski segja að myndirnar mínar séu svolítið mínimalískar og „hreinar”. Skemmtilegast af öllu finnst mér að gera myndir af einhverju einföldu sem vekur samt hjá fólki allskonar hugmyndir og tilfinningar. Ég auðvitað hef eitthvað í huga, en það fylgir aldrei með, ég vil ekki mata fólk, ég vil heldur vekja eitthvað innra með því og að hver túlki fyrir sig, og að verkið tali þannig til hvers og eins, persónulega.“

„Það er mjög misjafnt hvað ég er lengi að teikna hverja mynd en þessar sem fólk fær að sjá, taka mig marga daga, upp í vikur að gera. Myndir sem ég geri á skemmri tíma fær bara skúffan mín að sjá. Lang mest nota ég bara ódýra blýanta. Ef ég nota liti þá eru það vatnslitatrélitir frá Faber-Castell. Ég vil ekki eiga of mikið af allskonar dóti, áskorunin er að nota bara það sem ég á til.“

Takmarkað upplag af hverri mynd
Hver mynd kemur í ellefu prentuðum eintökum en sú tala varð óvart fyrir valinu. „Ástæðan er einfaldlega sú að prentarinn mælti með tíu en prentaði óvart 11 af hverri. Eftir mikla umhugsun, og samtal við vini og vandamenn, ákvað ég að ég myndi ekki prenta fleiri, þetta væri bara góð tala.“

En hvaðan kemur listamannsnafnið Krummafótur? „Það var nú engin djúp hugsun þar á bak við. Ég var með Instagramsíðu sem ég opnaði og lokaði mörgum sinnum, því ég hafði ekki hugrekki til að halda henni við. Ástæða þess að hún var opnuð var að mig langaði, undir nafnleynd, að vera „þátttakandi” í listinni þar. Ég þurfti notendanafn, dóttir mín var í krummafót svo ég notaði það bara.“

Ákveðin heilun fólgin í því að teikna
Edda segist ekki hafa fengið neina formlega menntun í listsköpun sinni.

„Ég fór á námskeið hjá Myndlistarskóla Kópavogs þegar ég var barn, sótti í að taka myndmenntatíma í grunnskóla og FSu eins og ég mátti og gat. En svo er mamma myndmenntakennari að mennt, svo ég er búin að vera í einkatíma í myndlist alla ævi. Það hlýtur að telja.“

Aðspurð hvort hún eigi sér einhver sérstök markmið varðandi verkin og listsköpunina segir Edda ekki svo vera. „Ég teikna bara fyrir mig, þetta er svona mín prívatstund, þar sem ég set tónlist í eyrun og í smá stund hugsa ég ekki um neitt annað. Þetta er því ákveðin heilun og stundum held ég að þetta sé það sem heldur mér gangandi. Kannski fæ ég líka ákveðna útrás um leið, fyrir pólitísku hliðina á mér og jafnvel húmor.“

Nær jarðtengingu í vinnunni
Þegar Edda er ekki að teikna þá starfar hún hjá Landgræðslunni. „Ég er fornleifafræðingur og safnafræðingur að mennt, sem kemur kannski engum á óvart sem sér hvernig ég teikna. Ég starfa sem skjalastjóri hjá Landgræðslunni og finnst ég mjög heppin að fá að vera hluti af því göfuga starfi sem þar fer fram. Ætli það megi ekki kalla það jarðtenginguna mína, maður verður jú stundum að vera í nútímanum og hugsa til framtíðar,“ segir Edda að lokum.

Hægt er að nálgast verk Eddu í Húm-Stúdíó á Selfossi.

Instagram-síða Krummafóts

Fyrri greinSex lömb liggja í valnum
Næsta greinBleikt boð í HÚM stúdíó