Það er alltaf gaman að fara í leikhús og sérstaklega gaman að sjá sýningar hjá áhugaleikhúsunum úti á landi þar sem aðstandendur sýninga eru drifnir áfram af einlægum áhuga og ástríðu fyrir göldrum leikhússins.
Undrrituð var því spennt að kíkja á sýningu Leikdeildar Ungmennafélags Gnúpverja í félagsheimilinu Árnesi á Heilsugæslunni eftir Lýð Árnason lækni í leikstjórn höfundar.
Heilsugæslan fjallar um dæmigerðan dag á lítilli heilsugæslu í smábæ. Á heilsugæslunni starfa tveir læknar. Hinn rólegi, umburðarlyndi Friðrik og hin nýjunga- og metnaðargjarna Ninna. Greinilegt er frá byrjun að þó að áherslur þeirra við læknisstörfin séu misjafnar þá bera þau samt sem áður bæði umhyggju fyrir velferð sjúklinga sinna. Þeim Þórarni Valgeirssyni og Sigþrúði Jónsdóttur, sem léku þau skötuhjú, tókst ágætlega að mála upp mynd af þessum ólíku persónum og kynna sín sjónarmið fyrir áhorfendum. Það hefði þó verið gaman ef hluti af þeim vangaveltum sem þau deildu með áhorfendum hefðu komið fram með skarpari söguþræði og auknum átökum þeirra á milli.
Á heilsugæsluna koma svo hinir ýmsu skjólstæðingar með fjölbreytt og ansi oft skondin vandamál. Leikhópurinn stóð sig vel í að teikna upp þetta skrýtna en samt svo venjulega fólk sem lagði leið sína til læknis þennan dag. Skemmtilegast var þegar persónurnar voru passlega raunverulegar og ekki of ýktar. Sérstaklega má nefna að Sigrún Bjarnadóttir var óborganleg í hlutverki hinnar öldruðu Davíðínu sem send hafði verið á milli sérfræðinga. Björn Júlíus Grímsson var flottur og orkumikill sem stressaður og útkeyrður jakkafatakall, límdur við símann sinn. Gylfi Sigurðsson vakti mikla kátínu hjá salnum sem hinn tilfinninganæmi, nýbakaði faðir og hárgreiðslan eyðilagði svo sannarlega ekki fyrir. Þóra Þórarinsdóttir vakti mikla lukku sem hin rassfagra Freydís og síðast en ekki síst fór Ingvar Hjálmarsson á kostum, bæði sem hinn sjarmerandi og siðblindi Steindór og hinn aldraði bóndi Guðjón.
Leikmyndin var látlaus og tókst ágætlega að draga upp andstæðurnar á milli þess gamla og nýja. Sérstaklega var gaman að „greininum“ og hinn öldruðu tölvu Friðriks, en það hefði alveg mátt skerpa þennan mun enn betur. Einnig saknaði ég þess að sjá hvergi læknabekk sem hefði getað brotið upp viðtalstímana á skemmtilegan hátt. Búningarnir voru litríkir og skemmtilegir og lögðu sitt af mörkum við að skapa allar þessar fjölbreyttu persónur. Rauða peysan hans Friðriks var í sérstöku uppáhaldi.
Þegar horft er á heildarmyndina hefur leikhópnum, Lýð og öðrum sem stóðu að sýningunni tekist að skapa góða sýningu sem létti lundina og vakti kátínu og hlátur meðal undirritaðrar og annarra áhorfenda. Það hefði þó bætt sýninguna enn meira að auka kraft og tempó í gegnum hana alla og þar hefði reyndari leikstjóri gert gæfumuninn.
Heilsugæslan er skemmtilegur samfélagsspegill með heilbrigðiskerfið í fyrirrúmi og velti höfundur upp mörgum ágætum spurningum sem okkur er alltaf hollt að velta fyrir okkur. Hvað gerir okkur hamingjusöm í starfi? Af hverju förum við til læknis? Hvar sleppir ábyrgð læknisins? Er hið nýja alltaf betra? Eða þurfum við kannski bara að borða hægar, hollar og minna og gá öðru hvoru til veðurs?
Ég hvet alla til að drífa sig í Árnes því sýningum fer fækkandi og er lokasýning á laugardaginn 28. mars.
Jónheiður Ísleifsdóttir