Skemmupartýið á gamlársdag ómissandi

Erla Björg Arnardóttir. Ljósmynd/Aðsend

Erla Björg Arnardóttir, garðyrkjuforkólfur og fararstjóri á Flúðum, svaraði nokkrum áramótaspurningum fyrir sunnlenska.is.

Hvernig var árið 2024 hjá þér? Árið var sannarlega upp og niður. Byrjaði með endalausri gleði fram í apríl og svo fór það á hliðina í smá stund en átti sína svakalega flottu spretti inn á milli.
Hvað stóð upp úr á árinu? Ferð með 80 manns inn í Kerlingafjöll í brúðkaup í september. Verður lengi í minnum haft. Svo var það allt þetta gríðarlega skemmtilega fólk sem ég kynntist í viðbót við allt hitt skemmtilega fólkið sem ég nú þegar þekki.
Hvaða lag hlustaðir þú oftast á? The Story með Brandi Carlile tvímæla laust. Fjöldi hlustana mældur í þúsundum.
Hvað finnst þér ómissandi að gera alltaf á gamlársdag/kvöld? Skemmupartýið í skemmunni hjá Grænna landi á gamlársdag. Höfum gert þetta í 17 ár. Jahh… fyrir utan þessi leiðinda Covid áramót sem enginn mátti gera neitt.

Erla Björg kemur oft af fjöllum, en hér er hún á fjöllum um síðustu áramót.

Hvað ætlarðu að gera um áramótin? Ég klára fimm daga ferð sem guide daginn fyrir gamlársdag og svo held ég mig heima eftir skemmupartýið og fara að sofa þegar að ég verð þreytt. Nýársdagur verður helgaður leti og svo er það Langjökull 2. janúar
Hvað er í matinn á gamlárskvöld? Maturinn verður hjá mömmu og pabba og það er svínasteik með svakalegustu sveppasósu sem til er.
Strengir þú eitthvað áramótaheit? Ekki sjens. Því ég gæti aldrei staðið við þau. En ég reyni að verða betri í öllu á næsta ári, ég sver það.
Hvernig leggst nýja árið í þig? Ég er mjög bjartsýn, á leið í skóla enn og aftur og sé í kúlunni minni óteljandi ferðir upp á hálendið með öllu dásamlega fólkinu sem ég vinn með í þeirri áttinni.

Fyrri greinForréttindi að fá að vinna með konunni sinni
Næsta greinKvenfélagið Unnur 102 ára í dag