Skiptir menning máli?

Spurningin „Skiptir menning máli?“ er yfirskrift málþings um samstarf og menningarstefnu í uppsveitum Árnessýslu á Hótel Heklu á Skeiðum laugardaginn 29. janúar.

Upplit boðar málþingsins í tengslum við aðalfund sinn. Málþingið hefst kl. 14 og að því loknu, kl. 15:30, hefst aðalfundurinn.

Sérstakur gestur málþingsins verður Signý Ormarsdóttir, menningarfulltrúi Austurlands. Yfirskrift erindis hennar er „Skilar skapandi kraftur fólkinu aftur? Um menningaruppbyggingu síðustu ára á Austurlandi“. Signý segir frá líflegu menningarstarfi á Austurlandi, menningarmiðstöðvum og samstarfi. Hún mun ennfremur miðla af reynslu sinni af mótun menningarstefnu á Austurlandi, en þar var fyrsta menningarráðið stofnað árið 2001. Þá munu menningarnefndir uppsveitanna og Byggðasafn Árnesinga kynna sig og ræða samstarfsfleti í menning­ar­málum í uppsveitunumum.

Málþinginu lýkur á pallborðsumræðum. Að málþingi loknu, um kl. 15:30, verður svo aðalfundur Upp­lits haldinn á sama stað. Á dagskrá fundarins eru venjuleg aðalfundarstörf.

Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum verður opnaður nýr vefur, sem er ætlað að verða ein aðalupplýsingaveita Upplits.

Upplitsfélagar, sveitarstjórnarfólk og allir þeir sem láta sig menningarstarfsemi í heimabyggð varða eru hvattir til að mæta á málþingið.

Fyrri greinStuð á Selfossþorrablóti
Næsta greinÞórsarar unnu á Egilsstöðum