Skítamórall fer aftur í ræturnar

Hljómsveitin Skítamórall sendir frá sér nýtt lag í dag og frumsýnir sömuleiðis myndband við lagið. Það nefnist Aldrei ein og er óhætt að segja að hér sé á ferðinni hreinræktaður Skítamóralssmellur.

„Það má segja að við séum að fara aftur í rætur gullaldaráranna. Við vildum gefa úr lag sem myndi minna fólk á það hvernig var að vera uppi á þeim tíma þegar skemmtanir snérust um sveitaballamenninguna og sjarmann við það allt saman. Þetta er einfalt og grípandi lag. Við vildum leggja okkar af mörkum til að gleðja fólk á þessum „fordæmalausu tímum“,“ sagði Gunnar Ólason léttur í samtali við sunnlenska.is.

Lagið er eftir Herbert Viðarsson bassaleikara hljómsveitarinnar en textinn eftir Val Arnarson fyrrum skólaskáld í Fjölbrautaskóla Suðurlands. Inntakið í textanum er það að þrátt fyr­ir að við séum öll ein­stök erum við langt frá því að vera ein, sam­an erum við ein heild.

Lagið er 100% sunnlensk afurð því til þess að stjórna upptökum fékk Skítamórall til liðs við sig Skaftfellinginn Vigni Snæ Vigfússon en sveit­in hef­ur unnið heil­mikið með hon­um í gegn­um tíðina.

Fyrri greinSnilldarverk bauð lægst í vegheflun
Næsta greinSvikahrappar á ferð í uppsveitunum