Kór St. Michael’s Grammar School frá Melbourne í Ástralíu verður með tónleika í Skálholtskirkju í kvöld, þriðjudag kl. 20:00.
Yfirskrift tónleikanna er Frá miðöldum til barokks en þeir eru áttundu tónleikar sumarsins í tónleikaröðinni Sumartónleikar í Skálholtskirkju.
Verkin á efnisskránni eru m.a. eftir Thomas Morley, Clement Janequin, Andreas Hammerschmidt, Johann Pachelbel, Johann Sebastian Bach og Dietrich Buxtehude. Auk þess verður flutt sónata fyrir flautu og orgel eftir Jean-Marie Leclair.
Stjórnandi kórsins er Gary Ekkel, og hann leikur einnig á barokkflautu. Með honum á orgel leikur Tom Healey.
Kór St. Michael’s Grammar School er í sinni fjórðu tónleikaferð um Evrópu í sumar. Í kórnum eru 30 meðlimir sem valdir hafa verið úr fimm kórum eldri nemenda skólans ásamt því að hafa þreytt inntökupróf. Kórdeild skólans hefur verið í þróun síðustu 20 árin af 107 ára sögu skólans, fyrst af Ian Harrison og síðan Dr Gary Ekkel frá 1996.
Vefsíða Sumartónleika hefur að geyma upplýsingar um dagskrá og flytjendur.