Sköpunargleðin við völd í Skjálftanum

Bláskógaskóli Laugarvatni. Ljósmynd/Ingibjörg Torfadóttir

Sköpunargleðin var sannarlega við völd í Íþróttamiðstöðinni í Þorlákshöfn í gær þegar Skjálftinn fór fram í fyrsta sinn. Skjálftinn er hæfileikakeppni fyrir unglinga í sunnlenskum grunnskólum sem byggir á Skrekk sem hefur verið haldinn í 30 ár fyrir unglinga í grunnskólum Reykjavíkurborgar.

Skjálftinn sýndur á RÚV2 kl. 18 í dag
Að þessu sinni fengu grunnskólar í Árnessýslu boð um að taka þátt en á næsta ári stendur til að bjóða skólum af öllu Suðurlandi að vera með. Skjálftinn fór fram með öðru sniði en upphaflega stóð til. Í staðinn fyrir að flytja atriði sín fyrir fullan sal af fólki mættu liðin hvert á eftir öðru til að taka þau upp þar sem ekki var hægt að hafa alla þá áhorfendur sem upphaflegt plan gerði ráð fyrir vegna sóttvarnaaðgerða. Áhorfendurnir sem ekki komust fá þó tækifæri til að sjá Skjálftann því hann verður sýndur kl. 18 á RÚV2 í dag, sunnudaginn 16. maí og eftir það er hann aðgenilegur á ungruv.is

Verðlaunaafhendingin verður einnig með óhefðbundnu sniði í ljósi aðstæðna. Hún fer fram í beinni í gegnum Instagram síðu Skjálftans þegar Salka Sól, formaður dómnefndar, fer með farandverðlaunagripinn til fyrsta sigurliðs Skjálftans kl. 20 í kvöld. Upptaka af þeirri stund verður svo áfram aðgengileg á Instagram síðu Skjálftans. Þau sem fá það hlutverk að velja siguratriðið eru sviðslistafólkið Bjarni Snæbjörnsson, Margrét Bjarnadóttir og Salka Sól sem er formaður dómnefndar.

Fara langt út fyrir þægindarammann
Af atriðunum að dæma þá hafa ungmennin unnið hörðum höndum að því að setja þau saman og að sögn Ásu Berglindar Hjálmarsdóttur, framkvæmdastjóra Skjálftans, hafa allir staðið sig ótrúlega vel og sérstaklega ef horft er til þessa furðutíma heimsfaraldurs.

„Þau hafa haldið í jákvæðnina þrátt fyrir að þau fái ekki að hitta hin liðin og ekki að sýna atriðin sín fyrir alla samnemendur, foreldra og aðra sem vonast var til að geta boðið í áhorfendasalinn. Þátttakendurnir hafa lagt á sig gríðarlega mikla vinnu við að setja saman atriðin og fullvíst að fleiri heldur en færri eru að fara langt út fyrir sinn þægindaramma og sigrast á sjálfum sér í leiðinni.“

Meðfylgjandi myndir eru teknar af Ingibjörgu Torfadóttir. Á næstu dögum mun fjöldinn allur af myndum birtast á facebook síðu Skjálftans.

Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri. Ljósmynd/Ingibjörg Torfadóttir
Grunnskólinn í Hveragerði. Ljósmynd/Ingibjörg Torfadóttir
Kerhólsskóli. Ljósmynd/Ingibjörg Torfadóttir
Bláskógaskóli Reykholti. Ljósmynd/Ingibjörg Torfadóttir
Sunnulækjarskóli. Ljósmynd/Ingibjörg Torfadóttir
Vallaskóli. Ljósmynd/Ingibjörg Torfadóttir
Grunnskólinn í Þorlákshöfn. Ljósmynd/Ingibjörg Torfadóttir
Fyrri greinÞriðji sigur Selfoss í röð
Næsta greinSelfyssingar fóru á kostum gegn Fram