Hin árlega pílagrímaganga frá Þingvöllum til Skálholts verður gengin 17.-18. júlí nk.
Síðustu fimm ár hefur verið gengin pílagrímaganga frá Þingvöllum að Skálholti á Skálholtshátíð sem haldin er sem næst Þorláksmessu að sumri 20. júlí. Gangan verður endurtekin í ár og hefst kl. 10 árdegis laugardaginn 17. júlí í Þingvallakirkju. Sr. Kristján Valur Ingólfsson flytur fararblesun. Dagskrá laugardagsins endar með stuttum kvöldsöng við Vígðulaug á Laugarvatni. Gist verður í svefnpokagistingu í Farfuglaheimilinu á Laugarvatni gegn vægu gjaldi. Á Laugarvatni er einnig hægt að kaupa kvöldmat og morgunmat. Farangur hefur verið fluttur fyrir fólk frá Þingvöllum að Laugarvatni.
Göngunni er fram haldið á sunnudagsmorgni frá Neðra-Apavatni kl. 9:00 og er gengið sem leið liggur að Skálholti til hátíðarguðsþjónustu í Skálholtsdómkirkju kl. 14.00. Hægt hefur verið að koma inn í gönguna á ýmsum stöðum og ganga aðeins hluta hennar en vera fullgildur pílagrímur á Skálholtshátíð.
Göngustjórar verða sr. Elínborg Sturludóttir, Anna Ingólfsdóttir, jógakennari og Björn Erlingsson. Sérstakur undirbúnings- og kynningarfundur verður haldinn í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu föstudaginn 16. júlí kl. 16:30.
Allir eru hjartanlega velkomnir. Skráning og nánari upplýsingar á www.skalholt.is/pilagrimagongur. Skráningargjald er kr. 1500.-